Magnað góð­verk: Skólinn fékk 200 milljónir í arf frá Magnúsi

Land­búnaðar­há­skóli Ís­lands fékk býsna rausnar­lega gjöf fyrir skemmstu þegar í ljós kom að Magnús Óskars­son, fyrr­verandi kennari og til­rauna­stjóri við skólann, hefði arf­leitt hann að öllum eignum sínum. Á­ætlað er að þær nemi um 200 milljónum króna.

Fjallað er um þetta á for­síðu Bænda­blaðsins sem kom út í dag, en Magnús lést þann 28. desember síðast­liðinn, 93 ára að aldri.

Magnús starfaði við Bænda­skólann á Hvann­eyri frá árinu 1955. Kenndi við Bænda­deild og Bú­vísinda­deild og var til­rauna­stjóri skólans um ára­bil. Auk þess yfir­kennari Bænda­deildar 1972-1982. Hann sat í ýmsum nefndum um land­búnaðar­mál og náttúru­vernd auk þess að eiga sæti í hrepps­nefnd Anda-kíls­hrepps í mörg ár og sinna fleiri trúnaðar­störfum.

Í frétt Bænda­blaðsins er haft eftir Ragn­heiði I Þórarins­dóttur, rektor Land­búnaðar­há­skóla Ís­lands, að gjöfin sé mjög rausnar­leg. Það skil­yrði fylgir að arfurinn verði nýttur við starf­semi sem tengdist starfi Magnúsar.

„Kvaðir arfsins fela í sér að fjár­munina skuli nýta til að byggja upp að­stöðu til rann­sóka og kennslu á sviði jarð­ræktar­fræða, um­hverfis­fræða og land­nýtingar. Arfinn má einnig nýta til að efla í­þrótta­að­stöðu við skólann eða verk­náms­að­stöðu á Hvann­eyri.“