Magnað afrek Katrínar um helgina: Tómas skar hálft hægra lungað burt – „Ég hélt bara á­fram að æfa“

Katrín Pálsdóttir frá Bolungarvík varð um helgina Íslandsmeistari í Ólympískri þríþraut á Laugarvatni um liðna helgi. Keppt var í 1,5 kílómetra sundi, 45 kílómetra hjólreiðum og 10 kílómetra hlaupi. Það er skemmst frá því að segja að Katrín kom fyrst í mark, níu mínútum á undan næsta keppanda.

Það sem gerir þetta afrek Katrínar magnaðra en ella er sú staðreynd að hún fékk sjaldgæft lungnakrabbamein árið 2019. Tómas Guðbjartsson, Lækna-Tómas, skar hálft hægra lungað burt en þrátt fyrir það hefur Katrín haldið áfram að keppa með svona líka góðum árangri.

Rætt er við Katrínu í Fréttablaðinu í dag og er óhætt að segja að Katrín sé mikil fyrirmynd sem gefst ekki upp svo glatt.

„Árið 2019 fékk ég krabba­meinið sem Tómas skar í burtu en þrátt fyrir það fór ég fimm vikum síðar í hálfan Járn­kall í Indónesíu og náði góðum tíma,“ segir hún í Fréttablaðinu. Hún finnur ekki fyrir neinum einkennum og er lítið að spá í að hún sé ekki með tvö heil lungu.

„Ég varð aldrei veik í hausnum þannig að ég spáði aldrei neitt mikið í þessu. Ég hélt bara á­fram að æfa og er al­mennt ekkert að velta þessu fyrir mér. Ég get ekki breytt neinu þannig að ég er frekar í gleðinni,“ segir hún í Fréttablaðinu.

Katrín, sem er fjármálastjóri hjá Bolungarvíkurkaupstað, æfir tvisvar á dag – fyrir vinnu og svo eftir vinnu. Sundlaugin á staðnum er lítil, aðeins 16 metra löng, og því syndir Katrín hring eftir hring. Svo hjólar hún sömu götuna fram og til baka og hleypur sama stiginn. Katrín býr sig nú undir hjólreiðakeppni á Vestfjörðum sem hefst í dag en þá eru hjólaðir 960 kílómetrar.

Nánar í Fréttablaðinu.