Magga Stína hefur Katrínu og Þórdísi að háði og spotti: „Ég segi takk“

Margrét Kristín Blöndal, sem er betur þekkt sem Magga Stína, lætur Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra heyra það í pistli sem birtist á Vísi í dag.

Ráðherrarnir tveir eru nú staddir í Madríd á sérstakri ráðstefnu Nató.

Pistill Möggu Stínu er skrifaður í kaldhæðnislegum tón, þar sem hún hrósar Nató hástert, en ljóst er af skrifunum að hennar raunverulega skoðun er allt önnur en sú sem hún lætur í ljós. Hægt er að líta á innleggið sem háðsdeilu.

„Mikið yljar það mér sem móður, dóttur og ömmu að sjá hve vel þær standa sig, konurnar okkar sem ég vil kalla svo og á þá að sjálfsögðu við okkar mæta forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur og hennar vinkonu utanríkisráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þar sem þær standa keikar og svo elegant í glæsilegum hópi helstu stríðsherra heimsins! Það er sko stórborgarbragur á okkar konum þessa dagana!“

Þetta skrifar Magga Stína, sem bætir við: „Í okkar þágu ætla þessir englar að auka stórlega útgjöld til hermála á öllum sínum vígstöðvum og í herliðum Evrópu skal fjölgað!“

Magga Stína hefur síðan hæðnislega þakkarræðu þar sem hún þakkar Íslandi meðal annars fyrir að lengja stríðsreksturinn með því að taka þátt í Nató.

„Ég segi takk. Ég segi takk, öll þið sem takið undir með kórnum. Ég segi takk öll sem leggið lið þeim málstað sem tætir í sundur „rétta drengi“ og ég þakka fyrir hve sameinuð við erum, íslensk þjóð um það að liðka fyrir lengra stríði, stærra stríði við hinn eina sanna óvin! Ég þakka fyrir það hve átaklaust það hefur verið fyrir okkar fremstu, útvöldu eðalforingja að setja þetta stríð í „rétt“ samhengi. Saman munum við láta þá hafa það óþvegið og fórnum sonum og eiginmönnum og feðrum svo sannarlega fyrir þann málstað!“