Magdalena setti börnin sín í varanlegt fóstur: „Ég setti vellíðan og öryggi barnanna mína í fyrsta sæti“

Magdalena Valdemarsdóttir tók erfiða ákvörðun um að setja þriggja ára tvíbura sína í varanlegt fóstur nýverið. Hún skrifar hjartnæman pistil, sem birtist í Kvennablaðinu í gær, sem flestir hefðu gott af að lesa. Hún segist stolt af því að hafa sett vellíðan og öryggi barna sinna í fyrsta sæti, þótt það sé erfitt.

Tvíburastrákar hennar fóru í fóstur hjá góðri fjölskyldu í fyrra. Fyrir um mánuði síðan átti Magdalena svo að fá þá aftur. „Ég var fyrst rosalega spennt og ætlaði að taka þá en fór svo að pæla hvernig á ég að tækla það þegar ég er ekki tilbúin og allt enn í rugli hjá mér andlega og allt það. Ég ræddi þetta fram og tilbaka við vinkonu mína og þar sem við vorum mikið saman daglega þá sá hún hvernig ég er og hvað er í gangi i mínu lífi og segir mér að henni finnst ekki tímabært að ég taki þá meðan allt er eins og það er og ég þurfi ná betri bata og vinna meira í sjálfri mér,“ skrifar hún.

„Það var erfitt að heyra þetta, en innst inni vissi ég að þetta var rétt hjá henni. Og ég skal alveg viðurkenna það að ég brotnaði oft niður við þá tilhugsun að geta ekki haft þá hjá mér, auðvitað vil ég hafa þá hjá mér, allir foreldrar vilja hafa börnin sín hjá sér. En eftir miklar pælingar og veltingar í hausnum og martraðir þá ákvað ég að þeir hafa það gott þarna, foreldrarnir gefa þeim allt sem þeir þurfa og það er eitthvað sem ég gæti t.d ekki vegna kvíðaröskunar minnar, og ég á það til að ofhugsa hluti og panikka og hvað ekki. Svo ég ákvað að þeir skipta mig máli og að það skiptir mig miklu máli að þeim líði sem best,“ skrifar hún.

Hún segist þannig hafa tekið ákvörðunina um að setja þá í varanlegt fóstur. Hún fór því á fund hjá Barnavernd og skrifaði undir pappíra til þess.

„ Þegar fundinum lauk stóð ég fyrir utan að bíða eftir fari heim og meðan ég beið eftir því að ég verði sótt helltist yfir mig raunveruleikinn! Sæll, þetta var eins og blaut tuska í andlitið: „Nú er ég ekki mamma lengur!“ hugsaði ég með mér; „Nú missti ég allt, omg, ég í alvöru gaf þá frá mér!” þó svo ég gerði það ekkert – en þið vitið, auðvitað verð ég mamma þeirra alltaf en þið vitið mér fannst þetta svo erfitt, mér fannst ég geta ekki verið til staðar fyrir þá og mér fannst ég hafa ekkert til að berjast fyrir í lífinu og þetta var bara roosalega erfitt.“

„…og erfiðara er það líka að eiga barnafötin þeirra og barnadótið og þurfa færa það og horfa á það og hugsa að þetta er búið spil, þeir koma ekki strax aftur,“ heldur hún áfram.

„Ég vil ná bata ég vil vera besta mamma í þeirra augum og þannig er það, eina sem ég vona er bara að þeir koma þegar þeir verða fimmtán, því þá geta þeir sagt sína skoðun á málinu.“

„En já – ég setti vellíðan og öryggi barnanna mína í fyrsta sæti og er stolt af því, þótt það sé erfitt. Því ég elska þá og ég er líka hugsa um mig þegar ég hugsa um þeirra vellíðan. Þarna líður þeim vel, þarna eru þeir öruggir og hafa það bara gott þeim skortir ekkert, ég get náð bata almennilega af áfallastreitunni og kvíðanum og verið besta útgáfan af mér og fyrirmynd fyrir þá og vonandi aðrar mæður,“ skrifar hún í greininni sem má lesa í heild sinni hér.