Mæla með Ís­landi sem á­fanga­stað þrátt fyrir CO­VID-19

16. maí 2020
15:43
Fréttir & pistlar

Greina­höfundur hjá Bloom­berg segir Ís­land vera hinn full­komna stað til að flýja CO­VID-19 en flestir ferða­manna­staðir eru nú lokaðir vegna heims­far­aldursins. Að sögn höfundarins eru flestir aðrir á­fanga­staðir heldur ó­merki­legir þar sem strangar reglur um sam­komur og fjar­lægðar­tak­markanir eru í gildi.

„Frá upp­hafi far­aldursins hefur Ís­land skorið sig út miðað við flest önnur lönd Evrópu með því að hafa fyrir­byggjandi far­alds­á­ætlun til­búna og haldið sig við hana,“ segir greina­höfundurinn og vísar til um­fangs­mikilla skimana gegn veirunni hér á landi en hann segir yfir­völd hafa haldið far­aldrinum niðri án þess að grípa til strangra að­gerða.

Hann bætir við að Ís­land hafi lengi verið þekkt fyrir gull­fal­legt lands­lag, norður­ljós, hella, og fleira en nú sé það orðið þekkt sem á­kveðin dæmi­saga um hvernig eigi að bregðast við CO­VID-19. „Ís­land hefur prófað fleiri íbúa miðað við höfuð­tölu en nokkuð annað land,“ segir hann enn fremur og tekur­fram að árangur hafi náðst við að rekja, greina og ein­angra öll til­felli.

Líkt og áður hefur verið greint frá stendur til að opna landið fyrir ferða­mönnum á ný í júní þar sem ferða­menn þurfa ekki lengur að fara í tveggja vikna sótt­kví við komuna til landsins. Ferða­menn munu þó þurfa að fara í skimun gegn veirunni við komuna til landsins eða skila inn vott­orði. Höfundurinn segir það vera lítið gjald til að njóta landsins.

„Á meðan önnur lönd berjast við að snúa aftur úr út­göngu­banni, á sama tíma og þau reyna að ýta undir ferða­mennsku, þá er það þess virði að fylgjast með Ís­landi. Ef lítið land getur greint, rakið og ein­angrað til­felli kóróna­veiru­smits, og endur­ræst ferða­manna­iðnaðinn á nokkra mánaða tíma­bili, þá er það hægt annars staðar líka.“