Maðurinn ekki lengur í lífshættu

Karlmaður sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags er kominn úr lífshættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Þar segir að rætt verði við manninn um leið og ástand hans leyfir. Rannsókn málsins miðar annars vel, að sögn lögreglu, en í tilkynningunni er tekið fram að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í Kópavogi eftir árásina vegna gruns um verknaðinn og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið.

Rannsókn lögreglu beinist einnig að tveimur bílbrunum sem urðu um helgina, að því er fram kom í frétt Fréttablaðsins í morgun. Annars vegar brann bíll í Kópavogi og hins vegar í Árbæ. Grímur sagði við Fréttablaðið að lögregla hefði lagt hald á fleiri en tvo hnífa við rannsókn málsins.