Linda Blöndal skrifar

Lýsið er ekki nein sönnuð vörn gegn smiti: Fríar fitusýrur og þorskalýsi

26. mars 2020
15:19
Fréttir & pistlar

Sögur ganga nú um ýmislegt sem á að verja okkur Covid veirunni, til dæmis nýtt lýsi sem mælt er með sem forvörn og nefnist Fríar fitusýrur og þorskalýsi.

Einnig er sagt er að 70 gráður drepi veiruna og að hún þrífist betur í kulda en hita og þá í þurru lofti. Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir segir allt satt og rétt um að veirunni líði betur í kulda og að 70 gráður drepi hana. Um lýsið segir hann ekkert sannað og ekkert annað en kenning þar á ferðinni.

Magnús fór yfir ýmsar staðreyndir um smit og veiruna sem heimsbyggðin glímir nú við, í spjalli við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld, fimmtudag.

Aðspurður um nýtt íslenskt lýsi á markaði sem framleiðendur og sérfræðingar á þeirra vegum segja geta dregið stórkostlega úr smithættu vírusa líkt og Covid - 19, segir Magnús að ekkert sé í hendi með slíkt og ekki hægt að segja fólki að slíkt virki gegn Covid veirunni. Magnús segir:

„Það má segja að sé kenning hjá ákveðnum einstaklingum sem að styðst við rannsóknir á öðrum veirum og við vitum að fitusýrur sem að finnast í þessari tegund af lýsi þær geta leyst upp hjúpinn sem að ver þessa veiru. En það eru allt saman tilraunir sem gerðar hafa verið í tilraunaglösum og við erum náttúrulega margfalt flóknari en tilraunaglös og það er mjög langur vegur frá því að fara úr niðurstöðum sem eru fengnar á þann hátt og yfir í að ráðleggja fólki um meðferð eða forvörn.“

Auk þess að vera ósannað bendir Magnús einnig á að smit berist upp með nösum á fólki og þangað fari lýsið að sjálfsögðu ekki.