Lýsa því yfir að John Snorri og félagar hafi látist á K2

Yfirvöld í Pakistan hafa lýst því yfir að fjallgöngumennirnir John Snorri Sigurjónsson, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr Pireto, hafi látist á K2, næsthæsta fjalli heims. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan snemma að morgni 5. febrúar.

Meðal þeirra sem senda samúðarkveðjur til aðstandenda þremenninganna er forseti Pakistans, Dr. Arif Alvi, sem gerði það á Twitter-síðu sinni nú í hádeginu.

Raja Nasir Ali Khan, ráðherra ferðamála í Pakistan, gerði slíkt hið sama á Twitter-síðu sinni. „Það er með miklum trega og mikilli sorg sem við lýsum fjallgöngumennina Ali Sadpara, John Snorra og JP Mohr formlega látna þar sem við okkur tókst ekki að finna þá meðan á umfangsmikilli leit stóð. Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð,“ segir hann og bætir við að notaðar hafi verið þyrlur og flugvélar sem tóku meðal annars myndir. Þrátt fyrir það fundust þremenningarnir ekki.

Hann segir mjög líklegt að þremenningarnir hafi komist á topp fjallsins en lent í ógöngum á leiðinni niður. Byggir hann það meðal annars á vitnisburði fjórða göngumannsins, Sajid Sadpara, sem þurfti frá að hverfa áður en hópurinn hélt í sína hinstu ferð.