Lygileg saga af Kára í World Class: „Við veðjum upp á 500 þúsund eða ekki neitt“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er engum líkur. Ótrúleg – en þó dagsönn – frásögn Guðjóns Haukssonar af kynnum hans af Kára hefur vakið athygli eftir að Lemúrinn fjallaði um hana á vef sínum í gær.

Allt gerðist þetta árið 2005 þegar Guðjón var á 24. aldursári. Hann spilaði körfubolta með Val og var býsna öflugur leikmaður, en samhliða körfuboltanum lagði hann stund á nám í hjúkrunarfræði. Þeir sem þekkja Kára vita að hann er mikill körfuboltaáhugamaður og eflaust eru einhverjir sem muna eftir honum úr World Class í Fellsmúla þar sem sagan byrjar.

Í viðtali við Lemúrinn lýsti Guðjón því að hann hafi verið klæddur í körfuboltatreyju á hlaupabrettinu í World Class í Fellsmúla þegar Kári gekk upp að honum. Í líkamsræktarstöðinni var körfuboltasalur og hafði Kári verið að taka skot þegar hann vatt sér upp að Guðjóni og spurði hann hvort hann væri ekki tl í að taka „smá one on one“.

Guðjón var meira en til í það og fékk hann að skjóta upp á hver byrjaði leikinn.

„Og það sem gerðist þá er að Kári fékk ekkert boltann. Ég vann bara 11-0,“ segir Guðjón og bætir við að það hafi fokið í Kára. Guðjón viðurkennir að hann hafi verið ungur og auk þess að æfa körfubolta og því hafi hann ekki gert mikið úr þessu. Svo fór að Kári skoraði á Guðjón í annan leik enda er hann þekktur fyrir mikið keppnisskap.

„Þannig Kári segir við mig að nú ætlum við að veðja, við ætlum að veðja upp á 500 þúsund kall. Hálfa milljón. Ég segi honum að ég er bara nemi hjúkrunarfræði, að vinna aðra hverja helgi, ég hafi enga hálfa milljón til að veðja. En ég segi honum að ég sé til í að veðja 10% af mínum launum gegn 10% af hans launum, en Kári stendur fast á sínu, við veðjum upp á 500 þúsund eða ekki neitt. En úr verður að við spilum aftur og ég vinn hann aftur.“

Guðjón segir að eftir leikinn hafi Kári beðið hann um símanúmerið hans. Guðjón hélt sína leið í verknám á slysadeild Landspítalans og geymdi símann í bílnum meðan á vaktinni stóð. Eftir vakina veitti hann því athygli að það voru býsna mörg ósvöruð símtöl úr sama númerinu. Guðjón hringdi til baka og var það sjálfur Kári Stefánsson sem svaraði.

„Hann kemur sér strax að efninu, spyr hvort mig langi ekki að fara á NBA-stjörnuleikinn,“ segir Guðjón og bætir við að þetta hafi verið á þriðjudegi en stjörnuleikurinn átti að fara fram helgina á eftir. Guðjón var að sjálfsögðu til í þetta og sagði Kári honum að drífa sig út í Íslenska erfðagreiningu. Guðjón gerði það og tók húsvörður á móti honum og rétti honum umslag.

„Og í því umslagi eru bara miðar á alla stjörnuhelgina. Það er búið að græja fyrir mig hótel og flug, fram og til baka til Denver, í gegnum Boston. Allt í boði Kára,“ segir hann og bætir við að um hálfgerða lúxusferð hafi verið að ræða. Hótelið hafi verið flott og þar hafi fjöldinn allur af gömlum NBA-leikmönnum dvalið.

Í umfjöllun Lemúrsins er einnig fjallað um hvernig Kári brást við á dögunum þegar Guðjón spurði hann hvort hann mætti segja þessa sögu opinberlega. Þá er einnig fjallað um annan skemmtilegan vinkil sem lýtur að kórónuveirufaraldrinum en Guðjón er í dag forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Hér má lesa þessa mögnuðu sögu í heild sinni.