Gosstöðvarnar í Meradölum verða lokaðar á morgun, en lokunin hefst klukkan fimm um morgun og verður svo staðan endurmetin seinnipartinn.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók þessa ákvörðun vegna veðurs, en gular viðvaranir taka gildi á svæðinu klukkan níu í fyrramálið. Búist er við rigningu og miklu hvassviðri og gert er ráð fyrir þrettán til átján metrum á sekúndu.
Varasamt er fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og aðra vegfarendur. Í tilkynningunni kemur einnig fram að ekkert ferðaveður sé á meðan gula viðvörunin er í gildi.
Almannavarnir hafa beðið fólk um að láta erlenda ferðamenn vita af lokuninni, en þeirri beiðni er beint sérstaklega á þá sem eiga í samskiptum við ferðamenn, ferðaþjónustu og gistiheimili.