Lögreglan óskar eftir aðstoð: sást þú hvað gerðist í kópavogi?

Fjór­tán ára ung­lingur varð fyrir fólsku­legri árás í síðustu viku af hópi ung­linga. Á­rásin var tekin upp á mynd­skeið og hefur það verið í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum. Drengurinn varð einnig fyrir árás á síðasta ári og hefur faðir hans kært of­beldið til lög­reglu. Hann glímir enn við eftir­köst vegna á­rásar sem hann varð fyrir í Hamra­borg í Kópa­vogi við bið­stöð Strætó. Of­beldið var hrotta­legt og enn í dag kastar drengurinn upp og er með höfuð­verk.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með málið til rannsóknar og óskar eftir aðstoð lesenda. Í skeyti lögreglu segir:

„ [drengurinn var] fluttur á slysadeild til aðhlynningar, en um grófa árás var að ræða. Við rannsókn málsins er m.a. stuðst við myndefni af árásinni.“

Þá segir enn fremur:

„Þeir sem urðu vitni að árásinni, eða búa yfir vitneskju henni tengdri, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu, en upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið [email protected]

Sigurður Hólm Gunnars­son, for­stöðu­maður á skamm­tíma­heimili fyrir ung­linga varð vitni að því á síðasta ári þegar ráðist var á sama dreng en þá voru sumir sem réðust á drenginn vopnaðir hnúa­járnum. Sú árás átti sér stað um miðjan dag við verslunar­kjarna í Grafar­vogi. Sigurður segir að það virðist vera í tísku að ráðast á ung­linga og taka of­beldið upp á síma.