Lögreglan á norðurlandi eystra tekur græn skref - fyrst allra lögregluembætta

Allar lögreglustöðvar á Norðurlandi eystra fengu viðurkenningu í lok ársins 2019 fyrir að hafa tekið fyrsta Græna skrefið í opinberum rekstri. Viðurkenninguna veitti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Um er að ræða fyrsta lögregluembættið sem tekur þetta skref og má búast við því að önnur embætti geri slíkt hið sama. 

Lögreglustöðvarnar sem fengu viðurkenningu eru á Akureyri, Dalvík, Húsavík, Siglufirði og Þórshöfn. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu á Facebook og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði þeim til hamingju á Facebook. 

Að sögn umhverfisráðherra er mikill hugur í starfsfólki embættisins og metnaður til að gera vel í umhverfismálunum. Skilvirkri úrgangsflokkun hefur verið komið upp á öllum stöðvum og leiðbeiningar eru vel sýnilegar starfsmönnum. Einnig hafa innkaup á ræsti- og hreinsiefnum verið tekin í gegn og umhverfisvottaðar vörur keyptar inn eins og hægt er. 

Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti að sögn umhverfisráðuneytisins.

„Í grænu skrefunum eru tilgreindar aðgerðir sem snerta sex umhverfisþætti og eru þær innleiddar í fimm áföngum. Fimmti áfanginn sýnir helstu aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun.

Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi og draga úr rekstrarkostnaði.

Þegar stofnun tekur fyrsta græna skrefið hlýtur hún viðurkenningu á áfanganum og svo sérstaka staðfestingu á hverju skrefi sem tekið er eftir það.

Markmið grænna skrefa í ríkisrekstri er að gera starfsemi ríkisins umhverfisvænni, auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra, draga úr rekstrarkostnaði ríkisstofnana, innleiða áherslur í umhverfismálum sem þegar hafa verið samþykktar og að gera aðgerðir stofnana í umhverfismálum sýnilegar,“ segir í lýsingu umhverfisráðuneytisins. 

Hægt er kynna sér græn skref í ríkisrekstri á sérstökum vef verkefnisins, www.graenskref.is