Lögregla fann vel útbúinn „pyntingaklefa“ í gámi

Sex karlmenn voru handteknir í Hollandi eftir að „pyntingaklefi“ fannst í suðurhluta landsins.

Í aðgerð lögreglu fannst hljóðeinangraður flutningagámur búinn áföstum tannlæknastól, handjárnum, garðklippum, límbandi, töngum, hnífum og lambhúshettum.

Fannst gámurinn eftir að nokkrum evrópskum löggæslustofnunum tókst að brjótast inn í leynilegt samskiptakerfi sem notað var að glæpamönnum.

Í frétt danska ríkisútvarpsins kemur fram að lögreglan hafi fundið sjö flutningagáma sem virðist hafa verið notaðir ýmist sem fangageymslur eða pyntingaklefar.

Allir þeirra voru hljóð- og hitaeinangraðir en talið er að með því síðarnefnda hafi glæpamennirnir reynt að koma í veg fyrir að hægt væri að sjá innihald gámanna með hitamyndavélum.