Lög­menn vist­mann­a sótt­kví­ar­hót­els feng­u 750 þús­und hver í þókn­un fyr­ir helg­ar­vinn­un­a

Lögmennirnir þrír sem gættu hagsmuna kærenda í þeim þremur málum sem héraðsdómur úrskurðaði í um helgi fengu 750 þúsund hver, í þóknun fyrir starf sitt. Vinna þeirra hófst eigi fyrr en síðastliðinn fimmtudag þegar reglugerðin tók gildi og lauk síðdegis á páskadag eftir að málin voru flutt í héraðsdómi Reykjavíkur.

Í frétt á visi er vísað til þess þess að í einum úrskurði hafi lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson vakið athygli dómsins á því að hann „hefði varið nánast öllum vökustundum sínum í málið, eða um þrjátíu tímum. Það væri hóflega áætlað auk þess sem vinnan hefði farið fram á einum helgasta tíma ársins þegar flestir væru í fríi frá hefðbundum störfum." Gerði hann kröfu á grundvelli 29,900 króna tímagjalds án virðisaukaskatts. Ætla má að hinir lögmennirnir tveir, Jón Magnússon og Reimar Pétursson, hafi gert svipaðar kröfur en svo fór að þeim var hverjum um sig dæmd 750 þúsund króna þóknun úr ríkissjóði fyrir vinnu sína.

Áður en til málaferlanna kom birti lögmaðurinn Ómar færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hann bauð fólki á hótelinu, sem vildi leita réttar síns, þjónustu sína endur­gjalds­laust.

Í frétt á vef Fréttablaðsins segir um facebook-færsluna, sem lögmaðurinn hefur nú eytt, að af henni megi ráða að það kunni að vera kostnaðar­samt að leita réttar síns fyrir þá sem eru látnir sæta í­þyngjandi að­gerðum í þágu sótt­varna. Svo sé þó ekki, þegar um frelsis­sviptingu er að ræða. Samkvæmt sóttvarnalögum sé heimilt að bera ákvörðun sóttvarnalæknis um frelsissviptingu undir dómstóla en um slík dómsmál segir meðal annars í lögunum: „Þóknun skipaðs tals­manns varnar­aðila og annan máls­kostnað, þ.m.t. kostnað við öflun læknis­vott­orða og annarra sér­fræði­skýrslna, skal greiða úr ríkis­sjóði.“

Í fréttinni er þó haft eftir Ómari að „það hafi ekki verið ætlun hans að blekkja neinn heldur hafi honum runnið blóð til skyldunnar þegar fréttir af sótt­kvíar­hótelinu komust fyrst í há­mæli. Hann hafi að­eins viljað vekja at­hygli þeirra, sem málið var skylt, á að þeir þyrftu ekki að hafa á­hyggjur af máls­kostnaði við að fara í svona mál."

Óhætt er að fullyrða að lögmennirnir þrír hafi unnið vinnuna sína enda tókst þeim að fá dómsúrskurð um ólögmæti sóttvarnaaðgerða heilbrigðisráðherra, en dómari héraðsdóms telur skyldubundna vistun í sóttvarnahúsi hafa farið gegn meðalhófsreglu og jafnræðisreglu. Þá hafi reglugberðarákvæði um vistunina ekki haft lagastoð.

Nú er úrskurðar Landsréttar beðið en gert er ráð fyrir úrskurði þaðan í dag.