Lögmaður Örnu sendi Hringbraut bréf: „Er ó­hjá­kvæmi­legt að gera við það al­var­lega at­huga­semd“

Lög­maður Örnu McClure, lög­manns Sam­herja, hefur ritað Hring­braut bréf þar sem á­skilinn er réttur til að bregðast við eftir við­tal á Frétta­vaktinni síðast­liðinn föstu­dag við Helga Seljan og Þóru Arnórs­dóttur. Til­raunir til að þagga niður í blaða­mönnum voru til um­ræðu í þættinum.

Hall­dór Brynjar Hall­dórs­son hæsta­réttar­lög­maður gerir meðal annars í bréfinu þá at­huga­semd að hlut­lægni hafi ekki verið gætt. Ekki hafi verið haft sam­band við Örnu áður en þátturinn var sýndur þrátt fyrir að vegið hafi verið að henni í þættinum. Engin til­raun hafi verið gerð til að leið­rétta rang­færslur sem fram hafi komið hjá við­mælendum.

„Er ó­hjá­kvæmi­legt að gera við það al­var­lega at­huga­semd að meðal annars sak­borningi í virkri lög­reglu­rann­sókn sé þannig veittur ó­heftur að­gangur til að koma sjónar­miðum sínum á fram­færi í fjöl­miðli og vega að brota­þola [Örnu, inn­skot blaða­manns] ó­hindrað, án þess að sjónar­miða brota­þola sé leitað eða honum veitt tæki­færi til að bera hönd fyrir höfuð sér. Er allur réttur á­skilinn vegna þessa,“ segir í bréfinu.

Frétta­blaðið-Hring­braut bauð Örnu með bréfi í gegnum lög­mann hennar að koma í við­tal í gær til að koma sjónar­miðum á fram­færi. „Skjól­stæðingur minn hefur hingað til talið rétt að halda sig til hlés þar sem virk lög­reglu­rann­sókn er í gangi. Mun hún meðan svo er ekki tjá sig opin­ber­lega til að forðast nokkuð sem á­hrif geti mögu­lega haft á rann­sóknina,“ segir meðal annars í svari Hall­dórs Brynjars.