Logi vill forsætis- og fjármálaráðuneytið – Daðrar við Framsókn

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að sinn flokkur vilji bæði forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið ef flokkurinn verður í næstu ríkisstjórn.

„Auðvitað myndi ég taka það ráðuneyti sem gefur okkur mest völd, auðvitað myndum við taka forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið,“ sagði Logi í Bítinu á Bylgjunni í morgun þegar hann var spurður hvaða ráðuneyti hann girntist. „Við áttum okkur á því að þegar margir flokkar setjast að borðinu þá þurfum við að semja um þetta. En við erum óhrædd, við getum og kunnum hvernig á að gera þetta.“

Hann tók af öll tvímæli um að Samfylkingin væri opin fyrir stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Flokkarnir gætu ekki rætt sig niður að annarri niðurstöðu en kyrrstöðu. „Það hefur ekki gengið því að það hefur verið ríkur þjóðarvilji í mjög mörgum málum, heilbrigðismálum, skattamálum og sjávarútvegsmálum, Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið mjög lengi við völd hefur náð að beygja meðflokka sína allt of mikið. Þannig að við teljum miklu betra að mynda miðjustjórn til vinstri.“

Logi daðraði svo við Framsóknarflokkinn, en Framsóknarflokkur verður líklega í lykilstöðu eftir kosningar. „Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt félagslega taug,“ sagði Logi og hló.