Lilja kveður: „Alltaf eru spennandi hlutir handan við hornið"

Lilja Rafney Magnúsdóttir, frambjóðandi fyrir Vinstri Græna í Norðvesturkjördæmi, gerir upp kosningarnar og kveður af þingi í hjartnæmri færslu á Facebook-síðu sinni. Hún var í öðru sæti í sínu kjördæmi en aðeins náðist einn inn þar.

Lilja hefur verið á þingi í tólf ár og segist þakklát öllum þeim sem hafa stutt hana í gegnum súrt og sætt.

„Ég skipaði nú 2 sætið hjá VG og tók slaginn með félaga mínum Bjarna Jónssyni en við uppskárum ekki sem skildi í þetta sinn," segir Lilja. Hún segist stoltust af því að hafa náð í gegn góðum breytingum á Strandveiðikerfinu.

„Alþingi er góður vinnustaður og þar hef ég unnið með góðu fólki úr öllum flokkum að fjölda framfaramála. Ég óska öllum nýkjörnum þingmönnum alls hins besta og er glöð með að hafa fundið þann velvilja og stuðning meðal kjósenda sem ég fann með félögum mínum á ferð okkar um kjördæmið Þakkir til allra sem lögðu okkur lið í kosningabaráttunni. Lífið er dýrmætt og alltaf eru spennandi hlutir handan við hornið. Vinátta,fjölskyldan og að reyna að láta gott af sér leiða er og verður mitt leiðarljósi áfram."