Líknarmeðferð er ekki dánaraðstoð

„Ég verð að segja eins og er að ég var í rauninni mjög undrandi og hissa þegar ég las þessa skilgreiningu í þessari skýrslu um að líknarmeðferð væri þar skilgreind sem ein tegund dánaraðstoðar“, segir Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, guðfræðingur og sjúkrahúsprestur Þjóðkirkjunnar í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld, mánudag. Hún segir ekki rétt að flokka líknarmeðferð undir dánaraðstoð, um allt annað sé að ræða. Hvergi sé líknandi meðferð talin til dánaraðstoðar.

„Í skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar þá er líknarmeðferð ekki skilgreind á þennan hátt“, segir Guðlaug Helga og hér á landi sé það ekki gert og ekki hjá líknardeild Landsspítalans.

Nýlega var birt skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð en beiðni kom frá nokkrum Alþingismönnum um hana og var þinginu birt skýrslan fyrir skömmu. Í henni eru meðal annars settar fram skilgreininingar á dánaraðstoð og líknandi meðferð talin ein tegund dánaraðstoðar.

Dánaraðstoð í stað líknardráps

„Þetta er gríðarlega flókið viðfangsefni sem við erum að tala um hér og vandmeðfarið og það skiptir mjög miklu máli að við séum með hugtökin eins mikið á hreinu og hægt er, þannig að við séum að tala um sömu hlutina og í þessari skýrslu er tilraun gerð til þess að skoða þessi hugtök og hugtakið dánaraðstoð er tiltölulega nýtt af nálinni hér á landi og kemur í rauninni í staðinn fyrir hugtaksins líknardráp“, segir Guðlaug Helga og segir að líknarmeðferð sé heildræn meðferð fyrir manneskjuna um hvernig unnið er með manneskju sem er að takast á við lífsógnandi, alvarlega langvinna sjúkdóma. Hvernig hægt er að nálgast hana með þeim hætti, að veika manneskjan er skoðuð heildrænt eða líkamlegum þörfum er mætt og þær metnar.

Um þetta segir hún:

„Við erum að reyna að mæta sálrænum þörfum, félagslegum, andlegum, trúarlegum og tilvistarlegum og áherslan er ætíð lögð á að við erum að leggja okkur fram um að bæta lífgæði fólks og þeirra einstaklinga sem að eiga við erfiða og langvinna og lífsógnandi sjúkdóma að stríða, við erum að reyna að mæta þeim og þeirra fjölskyldna“.

Líknandi meðferð er miklu meira en einungis að lina þjáningar lífhættulega veikra með lyfjum.

Hvort dánaraðstoð og líknandi meðferð séu andstæður segir hún: „Í rauninni má segja það að þegar fólk er í þessari glímu þá geta alveg komið upp vangaveltur sem að lúta að þessu eins og til dæmis í samtölum getur maður alveg fundið það að fólk er stundum orðið mjög þreytt og því finnast lífsgæði þess vera mjög takmörkuð eða lítil sem engin og fólk segir „ég get þetta ekki lengur“, en það er ekki þar með sagt að fólk sé að óska eftir því að endir verði bundinn á lífi þess“, segir Guðlaug Helga og hún hafi ekki orðið vör við óskir þess efnis í starfi sínu hjá veiku fólki.

Þjóðkirkjan ekki tekið afstöðu

Aðspurð um viðhorf innan Þjóðkirkjunnar segir hún að kirkjan hafi ekki tekið neina afstöðu til dánaraðstoðar. Og um nýlega Gallup könnun, sem sýnir að næstum 80 prósent landsmanna styður dánaraðstoð, telur hún slíka könnun geta sýnt aðra niðurstöðu þegar á hólminn er komið – þegar umræðan, sem hún fagnar, verður meiri.

Guðlaug Helga, guðfræðingur hefur verið sjúkrahúsprestur Þjóðkirkjunnar í yfir tvo áratugi og er formaður hjá Lífinu – Samtökum um líknarmeðferð. Hún hefur einnig unnið við öldrunarþjónustu hjá Reykjavíkurborg.