Líkir dvölinni á Íslandi við þekkta hryllingsmynd

Sænska leikkonan Aliette Opheim, sem fer með eitt af aðalhlutverkunum í Netflix-þáttunum Katla, segir að dvölin hér á landi í vetur hafi minnt á hina alræmdu hryllingsmynd, The Shining.

Þættirnir, sem eru úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, verða frumsýndir þann 17. júní næstkomandi og er óhætt að segja að eftirvæntingin vegna þeirra sé mikil.

Eins og nafnið gefur til kynna fjalla þættirnir um eftirmála eldgoss í Kötlu og líf íbúa í Vík sem hefur breyst talsvert eftir eldgosið. Þegar dularfull fyrirbæri byrja að koma undan jöklinum hefst atburðarás sem enginn gat séð fyrir.

Þegar tökur voru komnar vel af stað skall heimsfaraldur COVID-19 á og það hafði sín áhrif á framleiðslu þáttanna. Ákveðið var að stöðva tökur þáttanna tímabundið og í stað þess að senda Aliette heim til Svíþjóðar, af ótta við að landamærunum yrði lokað, var ákveðið að hún skyldi dvelja á Íslandi.

Svo fór að Aliette dvaldi hér á landi í fjóra mánuði og hafði hún lítið að gera hér á landi þann tíma sem hún dvaldi hér. Í viðtali við Smålandsposten í Svíþjóð nefnir Aliette að í þáttunum sé einmitt yfirgefið hótel í Vík þar sem einungis einn hótelstarfsmaður stendur vaktina og engir gestir dvelja.

Skyndilega var Aliette sjálf komin í þessi spor þar sem hún var alein á hóteli með einum starfsmanni.

„Það var nákvæmlega ekkert í gangi, bara ég og stelpan í móttökunni. Þetta var eins og í The Shining og á endanum gafst ég upp,“ segir hún. Aliette fór og leigði sér lítinn sumarbústað úti í sveit þar sem hún dvaldi þar til tökur hófust að nýju. Sem betur fer var hún á bíl og gat því skroppið í bíltúra hingað og þangað og skoðað það sem landið hefur upp á að bjóða.

„Ég kynntist góðri konu sem bjó þarna skammt frá. Ég fékk til dæmis að vera viðstödd þegar lömbin komu og hjálpa til við að taka á móti þeim. Þetta var mjög skemmtilegt,“ segir hún.

Þættirnir verða sem fyrr segir frumsýndir á Netflix á fimmtudag, þjóðhátíðardaginn 17. júní næstkomandi.