Leyniuppskrift af djúpsteiktum rækjum og súrsætri sósu sem lætur engan ósnortinn

María Gomez sælkera- og lífsstílbloggari með meiru lumar á ýmsu leyniuppskriftum eins og þessari sem við fáum að njóta góðs af. María er þekkt fyrir sínar gómsætu uppskriftir þar sem bragðlaukarnir fá að njóta sín til fulls og ekki skemmir fyrir fagurfræðilegt yfirbragð réttanna en María er annálaður fagurkeri. Enda er bloggsíðan hennar Paz ætluð nautnaseggjum og fagurkerum sem hafa gaman af því að hafa fallegt í kringum sig og borða góðan mat. Hér fáum við leyniuppskriftina hennar Maríu af djúpsteiktum rækjum með súrsætri sósu sem á eftir að æra alla nautnaseggi. Hér fáum við leyniuppskriftina hennar Maríu af djúpsteiktum rækjum með súrsætri sósu sem á eftir að æra alla nautnaseggi.

Uppáhalds rétturinn á kínastað frá bernsku

„Alltaf þegar ég fer á kínastað verður sami rétturinn fyrir valinu, djúpsteiktar rækjur með grjónum og súrsætri sósu. Ég hef valið þennan sama rétt allt frá því ég var barn. Alba, dóttir mín, elskar þennan rétt líka svo hann er krakkavænn en kannski ekki hollasti kosturinn. En eins og máltækið segir allt er gott í hófi og það má sko vel leyfa sér hann spari og jafnvel oftar eins og í matarboðum sem dæmi.“

Tekur örskamma stund að töfra þennan fram

Að sögn Maríu er mun auðveldara að gera þessa uppskrift heldur en ykkur grunar og tekur ekki nema um hálftíma í allt. „Svo er orlýdeigið algjör leynisuppskrift sem notuð er á asískum veitingastöðum. Hver bolla inniheldur rækju alveg eins og það á að vera, en ég notaði risarækjur frá Sælkerafisk. Svo mun það koma ykkur á óvart að súrsæta sósan er gerð úr Hunts tómatssósu. Hana lærði ég að gera hjá Thailenskri konu sem laumaði líka orlýdeig uppskriftinni að mér svo þið megið bóka að hér fáið þið gourmet útgáfu af þessum rétt.“

M&H Djúpsteiktar rækjur MG 3.jpg

Girnilegar djúpsteiktur rækjurnar með grjónunum og súrsætu sósunni að hætti Maríu./Ljósmyndir María Gomez.

Leyniuppskrift af djúpsteiktum rækjum með grjónum og súrsætri sósu

Fyrir þrjá til fjóra.

350 g risarækjur

2 pokar Tilda masmati grjón

1,5 líter af grænmetisolíu, ég notaði frá Wesson

Orlýdeig

150 g hveiti

75 g maizena mjöl (ekki sósu þykkirinn heldur sem stendur majsstivelse og er í gulum kassa)

½ tsk. fínt borðsalt

1 tsk. lyftiduft

smá pipar

1 tsk. sykur

1 msk. fiskisósa (ég notaði frá Blue Dragon)

2 dl pilsner

Súrsæt sósa

1 dl Hunts tómatssósa (ketchup)

2 dl vatn

70 g sykur

klípa af salti

  1. Verið búin að afþýða rækjurnar áður en þið hefjist handa.
  2. Byrjið á að setja allar rækjurnar á eldhúspappa til að taka allan raka úr þeim og dempið þær líka með eldhúspappír.
  3. Takið svo halann af með því að toga í endann á honum og halda fast um neðsta part rækjunnar.
  4. Setjið næst hrísgrjónin í pott og saltið vel og látið sjóða í 12 mínútur.
  5. Gerið næst orlýdeigið með því að blanda öllum hráefnum saman og hræra mjög vel, setjið svo til hliðar meðan súrsæta sósan er útbúin.
  6. Setjið allt sem á að fara í súrsætu sósuna saman í pott og látið byrja að sjóða og hrærið vel. Sjóðið í eins og 1 mínútu og leggjið til hliðar.
  7. Setjið næst olíuna á djúpa pönnu með þykkum botni eða stóran pott með þykkum botni og hitið á hæsta styrk (má líka notast við djúpsteikingarpott auðvitað ef þið eigið).
  8. Setjið næst eins og 5-6 rækjur í einu út í deigið og passið að drekkja þeim alveg í deiginu.
  9. Þegar olían er orðin heit veiðið þá hverja rækju upp úr deiginu með matskeið og hafið vel af deigi með og setjið út í olíuna svona eins og 5-6 í einu
  10. Setjið svo steiktar rækjur á disk með eldhúspappa á til að öll aukaolía farið í pappann
  11. Berið svo fram með grjónunum, sojasósu og súrsætu sósunni en ekki hella henni yfir rækjurnar áður en þær eru bornar fram. Notið hana bara til að dýfa í.

Verið ykkur að góðu.

M&H Djúpsteiktar Rækjur María G 2021.jpg