Leyndardómar Jómfrúarinnar á 25 ára afmælinu

Veitingastaðurinn Jómfrúin fagnar 25 ára afmæli í ár og það verður mikið um dýrðir í tilefni þess að sögn Jakobs Einars Jakobssonar framkvæmdastjóra og eiganda veitingastaðarins. Í tilefni afmælisársins heimsækir Sjöfn Þórðar, Jakob Einar og fær innsýn í sögu veitingastaðarins og hvernig Jómfrúin hefur þróast á þessum árum frá upphafi en faðir Jakobs Einars, Jakob Jakobsson og eiginmaður hans Guðmundur Guðjónsson stofnuðu Jómfrúnna og ráku í tæplega tuttugu ár. Jakob Einar segir okkur forsöguna hvernig það kom til að faðir hans, fór út í það að opna ekta smurbrauðsveitingahús hér á landi. „Útskrift hans úr smurbrauðsskóla Idu Davidsen vakti athygli langt út fyrir landsteinanna enda söguleg á þeim tíma,“ segir Jakob.

Jakob Jakobsson, stofnandi Jómfrúarinnar, er fyrsti maðurinn í heiminum til að útskrifast sem „smørrebrødsjomfru“ frá hinum heimsþekkta veitingastað í eigu Ida Davidsen, erfingja Oscar Davidsen smørrebrød-veitingastaðarins í Kaupmannahöfn.

„Meðal þeirra nýjunga sem við ætlum að bjóða uppá í tilefni afmælisins er kampavínspörun með smurbrauðinu og við fengum til liðs við okkur Stefán Einar Stefánsson formann Kampavínsfjélagsins sem hefur þróað þessa hugmynd með okkur,“ segir Jakob Einar og nefnir að viðtökur viðskiptavina séu mjög góðar við þessari nýjung enda kærkomin viðbót við það drykkjarúrval sem í boði er og hægt er að para með matnum. Jómfrúin býður upp á mikið úrval af dönsku smurbrauði í bland við klassíska danska og skandinavíska aðalrétti. Þar sem hefð og handbragð danskrar matreiðslu ásamt áræðinni íslenskri nýjungasmíð er í öndvegi. Stefán Einar kemur jafnframt í þáttinn og ljóstrar upp hvernig samstarf Kampavínsfjélagsins og Jakobs Einars varð til. „Bílskúrinn minn kemur meðal annars við sögu þegar þetta fór allt af stað,“ segir Stefán Einar og hlær.

Meira um þetta sannkallaða afmælisár sem framundan er á Jómfrúnni í þættinum Matur og Heimili í kvöld klukkan 20.00 og aftur klukkan 22.00.