„Það er ekki hægt að sitja að­gerðar­laus og bara bíða og vonast eftir krafta­verki“

Hug­búnaðar­fyrir­tækið Godo stendur fyrir verk­efninu styrkjumis­land.is en verk­efnið miðar að því að létta undir með fyrir­tækjum, fjöl­skyldum og ein­stak­lingum sem starfa í ferða­þjónustu þar sem dregið hefur úr er­lendum ferða­mönnum í ljósi CO­VID-19.

Á vef­síðunni er hægt að kaupa gjafa­bréf fyrir til­vonandi ferða­lög innan­lands en gjafa­bréfin nýtast á fjöl­mörgum gisti­stöðum um allt land. Fyrir 14.990 kr. býðst viðskiptavinum að kaupa gjafabréf sem gildir fyrir einnar nætur gistingu fyrir tvo. Gjafabréfið gildir frá 5. maí 2020 til 31. maí 2021, en handhafi þess velur sjálfur hvar og hvenær hann nýtir inneignina.

Katrín Magnús­dóttir, rekstrar­stjóri Dodo, segir að nú sé komið að því að Ís­lendingar ferðist innan­lands og kynnist því sem Ís­land hefur að bjóða.

Hægt er að festa kaup á gjafabréfinu á vefsíðunni styrkjumisland.is

„Það hefur orðið al­ger tekju­brestur í greininni og margar fjöl­skyldur sem hafa staðið vaktina síðustu ár og lagt allt sitt í upp­byggingu á gríðar­lega flottri ferða­þjónustu á Ís­landi hafa horft á eftir lifi­brauði sínu hverfa nánast yfir nóttu,“ segir Katrín en Godo sér um bókanir flestra gisti­staða hér á landi og var ljóst strax frá upp­hafi að tölurnar væru sláandi. „Þess vegna á­kváðum við að gefa hluta af vinnunni okkar til að hjálpa okkar við­skipta­vinum.“

Öðruvísi verkefni

Godo var stofnað árið 2012 og sér­hæfir sig í þjónustu og hug­búnaðar­lausnum fyrir fyrir­tæki. “Þetta verk­efni er frá­brugðið öðrum verk­efnum sem við höfum ráðist í að því leiti að því er beint til ís­lenska ferða­mannsins fyrst og fremst,“ segir Katrín.

„Við erum þó rétt að byrja og hvetjum þau fyrir­tæki sem standa sterkt og eru í stöðu til að leggja verk­efninu lið með kaupum á gjafa­bréfum fyrir sitt starfs­fólk eða með öðrum hætti að hafa sam­band.“

„Það er ekki hægt að sitja að­gerðar­laus og bara bíða og vonast eftir krafta­verki. Það versta við svona stöðu er að gera ekki neitt,“ segir Katrín enn fremur og bætir við að það hafi verið á­nægju­legt að sjá hversu margir voru til­búnir til að leggja sitt af mörkum til að verk­efnið yrði sem viða­mest. „Það verður krefjandi verk­efni að endur­reisa ferða­þjónustuna, en okkur mun takast það í sam­einingu.”