Leó er látinn: Snerti líf margra

Leó Kristjáns­son fædd­ist á Ísaf­irði 26. júlí 1943. Hann lést á Land­spít­ala – Há­skóla­sjúkra­húsi 13. mars 2020. Leó var jarðvísindamaður og á heimsvísu varð Leó einn af helstu sér­fræðing­um í sín­um fræðum og virt­ur eft­ir því í hópi jarðvís­inda­fólks.

Leó kvænt­ist eft­ir­lif­andi eig­in­konu sinni, El­ínu Ólafs­dótt­ur. Eignuðust þau tvö börn, Kristján og Margréti.

Leó út­skrifaðist með BS-gráðu í eðlis­fræði frá Ed­in­borg­ar­há­skóla 1966 og MS-gráðu í jarðeðlis­fræði frá Há­skól­an­um í Newcastle upon Tyne 1967. Hann lauk doktors­prófi í jarðeðlis­fræði við Memorial-há­skóla í St. John's í Kan­ada árið 1973.

Leó starfaði lengst af við grunn­rann­sókn­ir í jarðeðlis­fræði hjá Raun­vís­inda­stofn­un Há­skól­ans og Jarðvís­inda-stofn­un Há­skól­ans, auk þess að sinna kennslu í al­mennri eðlis­fræði, jarðeðlis­fræði, varma­fræði, afl­fræði, raf­seg­ul­fræði og fleiri grein­um við Há­skóla Íslands yfir nær hálfr­ar ald­ar tíma­bil.

Hér má finna heimasíðu Leós þar sem hin ýmsu verk er að finna

Leó var frum­kvöðull á sviði berg­seg­ul­mæl­inga á ís­lensk­um hraun­lög­um og seg­ul­sviðsmæl­inga á Íslandi og land­grunn­inu. Hann lagði grund­völl að aldursflokkun ís­lenska bergstafl­ans og var meðal virt­ustu vís­inda­manna á sviði berg­seg­ul­mæl­inga og rann­sókna á breyt­ing­um á jarðseg­ul­sviði jarðar und­an­far­in 15 millj­ón ár.

Fyr­ir fram­lag sitt var hann gerður að heiðurs-fé­laga í American Geophysical Union árið 2002 og er hann eini Íslend­ing­ur­inn sem hlotið hef­ur þann heiður.

Leó vann jafn­framt að sögu rann­sókna á ís­lensk­um steind­um og berg­teg­und­um, einkum silf­ur­bergi og notk­un þess í mæli­tækj­um fyrr á öld­um.

Leó var höf­und­ur fjölda greina í alþjóðleg­um vís­inda­rit­um, auk þess sem hann skrifaði um sögu vís­inda­rann­sókna, út­gáfu og kennslu í jarðvís­ind­um og fleiri raun­grein­um á Íslandi. Eft­ir hann liggja einnig fjöl­marg­ar alþýðleg­ar grein­ar, skýrsl­ur, rit­dóm­ar, ritskrár, og grein­ar um kennslu­mál.

Á starfs­ferli sín­um gegndi Leó fjöl­mörg­um trúnaðar-störf­um inn­an Há­skóla Íslands, Raun­vís­inda­stofn­un­ar Há­skól­ans, Rann­sókn­aráðs rík­is­ins, Vís­inda- og tækni­ráðs, Jarðfræðafé­lags Íslands, Vís­inda­fé­lags Íslend­inga, Vís­inda­nefnd­ar NATO, Vís­inda- og tækniþró­un­ar­nefnd­ar ESB o.fl., auk ým­issa rit­stjórn­ar­starfa.

Útför Leós fór fram í kyrrþey vegna áhrifa COVID-19 og þeirra sér­stöku aðstæðna sem nú ríkja í sam­fé­lag­inu

Fjölmargir minnast Leós bæði í Morgunblaðinu og á samfélagsmiðlum.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands minnist Leós í löngu máli og rekur feril hans. Þá segir Jón Atli:

„Fyrir hönd Háskóla Íslands þakka ég störf Leós Kristjánssonar í þágu skólans og votta aðstandendum hans innilega samúð.“

Kristján sonur Leós segir:

„Hann var einstakur maður að svo mörgu leyti og eftir nær 50 starf innan veggja Háskóla Íslands hefur hann snert líf margra.

Komið hefur fyrir að fólk sem ég þekki ekki hafi stokkið á mig á götu og faðmað mig fyrir það eitt að vera skyldur honum.

Góða ferð elsku besti pabbi, þín verður sárt saknað.“

Kristján Pét­ur tvíburabróðir Leós skrifar í Morgunblaðið:

„Leó var mikl­um náms­gáf­um gædd­ur og var dúx bekkj­ar síns öll skóla­ár. Á stúd­ents­prófi í MA 1962 fékk hann hæstu meðal­ein­kunn sem gef­in hafði verið í mennta­skól­um lands­ins. Hann varð einn fyrst­ur til að fá „stóra styrk­inn“ svo­kallaða, ríf­leg­an náms­styrk fyr­ir besta náms­fólk lands­ins.

Leó var fyrri okk­ar tví­bur­anna inn í þenn­an heim og hann varð á und­an yfir í þann næsta. Seinna verður sagt á ný, þá fyr­ir hand­an: „Það kem­ur víst einn til.“ Þangað til lifi ég í minn­ing­unni um ein­stak­an bróður.“

Kveðja frá Raun­vís­inda­stofn­un Há­skól­ans - Hafliði Pét­ur Gísla­son, formaður stjórn­ar skrifar:

Sum­ir sam­ferðamenn marka dýpri spor en aðrir. Leó Kristjáns­son var einn þeirra, setti sterk­an svip á Raun­vís­inda­stofn­un Há­skól­ans í næst­um hálfa öld með störf­um sín­um og nær­veru. Leó var önd­veg­is­vís­indamaður, skarp­ur og klár, ósér­hlíf­inn í ótelj­andi rann­sókn­ar­ferðum sín­um í felti.

Á rann­sókna­sviði sínu, berg­seg­ul- og seg­ul­sviðsmæl­ing­um á Íslandi og breyt­ing­um á jarðseg­ul­sviði jarðar síðustu 15 millj­ón árin, var hann meðal virt­ustu vís­inda­manna í heimi og var gerður að heiðurs­fé­laga í American Geophysical Union árið 2002 fyr­ir vikið, einn Íslend­inga. Leó lagði einnig stund á sögu vís­inda­rann­sókna, einkum hina ein­stæðu eig­in­leika ís­lensks silf­ur­bergs og þátt þess í að auka þekk­ingu á eðli ljóss og víxl­verk­un­um þess og efn­is­heims­ins.

Hann birti einn og með öðrum fjölda vís­inda­greina í ritrýndum alþjóðleg­um tíma­rit­um, hélt víða er­indi á ráðstefn­um, en var einnig sískrif­andi alþýðleg­ar grein­ar um ýmis hugðarefni sín, ekki síst kennslu og út­gáfu í jarðvís­ind­um og fleiri raun­grein­um á Íslandi. Á starfs­ferli sín­um gegndi Leó fjöl­mörg­um trúnaðar­störf­um inn­an Há­skól­ans og Raun­vís­inda­stofn­un­ar auk ým­issa starfa fyr­ir inn­lent og er­lent vís­inda­sam­fé­lag.

Fyr­ir hönd stjórn­ar og starfs­manna Raun­vís­inda­stofn­un­ar Há­skól­ans þakka ég Leó Kristjáns­syni langa og far­sæla sam­ferð og færi fjöl­skyldu hans inni­leg­ar samúðarkveðjur.

Helgi Björns­son skrifar:

„Íslend­ing­ar eru í þakk­ar­skuld við Leó Kristjáns­son. Fyr­ir skerf hans til vís­inda, það gagn, sem hann vann með rann­sókn­um og há­skóla­kennslu, op­in­ber­um fyr­ir­lestr­um og fræðigrein­um fyr­ir al­menn­ing. Lengi mun orðspor hans lifa í rit­verk­um, nem­end­um og sam­starfs­mönn­um. Okk­ur, sem þekkt­um hann vel, finnst samt mest til um, hvern mann hann hafði að geyma.“

Páll Ein­ars­son jarðeðlisfræðingur segir:

Með frá­falli Leós Kristjáns­son­ar lýk­ur merk­um kafla í sögu jarðvís­inda á Íslandi. Hann hóf starfs­fer­il sinn á upp­hafs­ár­um mik­illa bylt­inga í hug­mynda­heimi jarðvís­ind­anna. Kenn­ing­ar um stór­felld­ar hreyf­ing­ar jarðskorp­unn­ar voru að ryðja sér til rúms, kenn­ing­ar sem nú ganga und­ir heit­inu fleka­kenn­ing­in og mynda ramma utan um flest­ar hug­mynd­ir í jarðvís­ind­um nú­tím­ans.

Leó valdi sér viðfangs­efni á sviði fornseg­ul­mæl­inga, sem lagði til eina af meg­in­stoðum fleka­kenn­ing­ar­inn­ar. Þar átti hann sam­starf við helstu vís­inda­menn heims­ins og lagði sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar.

Hann var óþreyt­andi við mæl­ing­ar á seg­ul­mögn­un í ís­lensku basalti og mældi mörg snið í gegn­um jarðlag­astafla Íslands. Með mæl­ing­un­um má ann­ars veg­ar ráða í sögu seg­ul­sviðs jarðar­inn­ar síðustu 15 millj­ón­ir ára, og hins veg­ar sögu Íslands á sama tíma.

Rann­sókn­ir Leós höfðu því bæði ríku­lega alþjóðlega skír­skot­un og staðbundna þýðingu fyr­ir rann­sókn­ir á jarðfræði Íslands. Fyr­ir fram­lag sitt til þess­ara rann­sókna var Leó kjör­inn heiðurs­fé­lagi í Jarðeðlis­fræðisam­bandi Am­er­íku.

Leó hafði líka ómet­an­leg áhrif á sam­fé­lag og starf­semi jarðvís­inda­manna á Íslandi. Hann var einn af fyrstu mönn­um hér á landi til að mennta sig í jarðeðlis­fræði og ljúka hæstu próf­um á sínu sviði. Hann var því ómet­an­leg fyr­ir­mynd okk­ur hinum sem á eft­ir fylgdu. Jarðfræðafé­lag Íslands var ný­stofnað og at­hygli jarðvís­inda­manna heims­ins hafði beinst að Íslandi. Það var því mik­ill hug­ur í mönn­um að láta að sér kveða.

Leó var góður vinnu­fé­lagi og ekki spillti fyr­ir að hann var mik­ill húm­oristi. Hann sá æv­in­lega óvænta og oft spaugi­lega hlið á mál­um. Hans er sárt saknað á gamla vinnustaðnum.“

Magnús Tumi Guðmunds­son jarðfræðingur skrifar:

Leiðir okk­ar Leós lágu sam­an í fyrsta sinn í byrj­un sept­em­ber fyr­ir 38 árum. Í hópi ný­nema við Há­skóla Íslands vor­um við nokk­ur að byrja í stærð-, eðlis- eða jarðeðlis­fræði. Allt var nýtt fyr­ir okk­ur. Nýr skóli, öðru­vísi kennsluaðferðir, nýir kenn­ar­ar. Og við hald­in kvíðabland­inni eft­ir­vænt­ingu. Fyrsti dæm­a­tím­inn í eðlis­fræði var í kennslu­stofu í VR-2. Þar var þessi vörpu­legi og svip­sterki maður mætt­ur til að fara yfir til­raun­ir okk­ar til að leysa dæm­in sem fyr­ir voru sett og leiða okk­ur í rétta átt. Og það tókst hon­um. Með sam­blandi af inn­sæi, hnyttni og ná­kvæmni tókst Leó að gæða efnið lífi með þeim hætti að fáir hefðu leikið það eft­ir.

Sú leiðsögn sem þarna hófst átti eft­ir að standa í ára­tugi. Alltaf var hægt að leita til Leós og það var alltaf gagn af þeim fund­um. Holl­ráðari maður var vand­fund­inn enda glögg­skyggn og víðfróður með af­brigðum.

Á heimsvísu varð Leó varð einn af helstu sér­fræðing­um í sín­um fræðum og virt­ur eft­ir því í hópi jarðvís­inda­fólks. Allt frá upp­hafi birti Leó niður­stöður sín­ar í virt­um alþjóðleg­um tíma­rit­um. Þar skapaði hann for­dæmi sem átti stór­an þátt í að gera jarðvís­ind­in við Raun­vís­inda­stofn­un að sterkri ein­ingu sem naut virðing­ar á alþjóðavett­vangi. Á þess­ari arf­leifð bygg­ir Jarðvís­inda­stofn­un Há­skól­ans í dag.

Sem sam­starfsmaður var Leó skemmti­leg­ur fé­lagi með glöggt auga fyr­ir sniðugum vinkl­um á hvaðeina sem upp á kom. Hann lauk verk­efn­um hratt og vel og meðan Leó beið eft­ir að aðrir kláruðu sinn hlut nýtti hann tím­ann vel. Hann gegndi stjórn­un­ar­störf­um af ýmsu tagi, rit­stjórn­ar­störf­um, skrifaði alþýðleg­ar fræðslu­grein­ar og beitti sér fyr­ir nýj­ung­um í til­rauna­kennslu.

Sá eðlis­lægi dugnaður sem var Leó í blóð bor­inn kom m.a. fram í því að hann var virk­ur fram á síðasta dag. Á hann hafði herjað ill­víg­ur sjúk­dóm­ur og það sá á hon­um. En síðustu vik­urn­ar á spít­al­an­um nýtti hann tím­ann til að lesa próf­ark­ir og ganga fá mál­um. Það er sárt að sjá á bak þess­um öðlingi og læri­föður. Miss­ir fjöl­skyld­unn­ar er þó mest­ur og ég votta El­ínu, Kristjáni, Mar­gréti og fjöl­skyld­um þeirra samúð mína.