Lenya Rún birtir hatursskilaboðin: Ætlar að halda áfram að afhjúpa íslenska rasista

Lenya Rún Taha Karim, sem datt út af þingi fyrir Pírata eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi eftir þingkosningarnar, birtir hatursskilaboð á Twitter sem henni bárust.

„Nafngreinum rasista 2k21,“ segir hún en skilaboðin sem um ræðir bárust í gegnum Facebook-síðu hennar. Þar segir viðkomandi að hann voni að hún komst aldrei á þing auk þess sem hún er uppnefnd „útlenskt rusl“. Þá segir viðkomandi í skilaboðum sínum einnig: „ÍSLAND FYRIR ÍSLENDINGAAAAAAA.“

Í Twitter-þræði sínum segist Lenya ætla að opinbera öll skilaboð af þessu tagi sem hún fær og nafngreina rasistana. „Skulda engum neitt,“ segir hún.

Færsla Lenyu hefur vakið mikla athygli á Twitter og meðal þeirra sem leggja orð í belg má nefna Nichole Leigh Mosty sem sat á þingi fyrir Bjarta framtíð.

„Ég varaði þig við þessu,“ segir Nichole og hvetur Lenyu til að hunsa ekki svona skilaboð eins og hún gerði. Hvetur hún hana til að kæra málið til lögreglu enda skýrt brot á almennum hegningarlögum.

Lenya er fædd og uppalin á Íslandi en foreldrar hennar eru frá Kúrdistan og fæddist hún hér á landi eftir að þau fluttust til landsins. Hún hefur áður opnað sig um rasisma sem hún verður fyrir. Það gerði hún til dæmis í aðdraganda kosninganna í september síðastliðnum.