Lenya Pírati ekki hrifin af kirkjuferðum: „Mesti vibbi sem ég þekkti í barnæsku“

Lenya Rún Taha Karim, sem var nálægt því að komast á þing fyrir Pírata í síðustu kosningum, er ekki par hrifin af kirkjuferðum. Hún opnaði sig um þetta á Twitter í kvöld:

„Mesti vibbi sem ég þekkti í barnæsku voru árlegu kirkjuferðirnar sem þau fóru með okkur í. Ég var alltaf skilin eftir ein í skólanum og fannst trúin mín (íslam) vera óeðlileg og ég ætti að vera eins og öll hin. Vá hvað ég vona að skólar séu hættir að gera þetta,“ segir hún en tekið skal fram að Lenya er að læra fyrir próf.

„Myndi meira að segja ganga svo langt að segja að þetta fari gegn trúfrelsi sem á að ríkja á Íslandi en það er kannski aðeins of hot take á þessu fína miðvikudagskvöldi 16 tímum fyrir próf hjá mér.“

Lenya er ekki viss hvers vegna hún fór ekki með.

„Ég er bara ekki viss, kannski því þetta var ekki mín trú og frekar skrýtið að ég hafði aldrei stigið fæti inn í mosku en væri árlegur gestur í kirkjunni,“ segir hún.

Hún var í grunnskóla í Kópavogi. „Ég er einmitt að taka meira eftir því að kennarar áttu erfiðara með að virða mörkin hjá trúlausu börnunum - er virkilega svona erfitt að sýna börnum basic virðingu þegar það kemur að trúarbrögðum?“