Leitar að nafni á ríkisstjórnina: Er þetta besta hugmyndin til þessa?

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stakk upp því á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi að nýja ríkisstjórnin fengi viðurnefnið Aðventustjórnin. Stjórnarsáttmálinn var kynntur í gær, sunnudaginn 28. nóvember, en svo vill til að þá var fyrsti sunnudagur í aðventu.

Fjölmargir hafa lagt orð í belg við færslu Vilhjálms og á Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, einna skemmtilegustu hugmyndina. Hann stingur upp á því að ríkisstjórnin fái viðurnefnið jólastjórnin. „Með 13 jólasveina (ráðherrar + forseti þings),“ bætir hann við.

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, segir að Aðventustjórnin sé ágætis nafn. „Það er fínt, því aðventan er aðeins fjórar vikur.“

Aðrir eru á því að stjórnin ætti að heita Höfuðborgarstjórnin og eru þó nokkrar tillögur komnar þar að lútandi.