Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins á flótta

Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum leggja nú á flótta hver af öðrum. Síðast var staðfest í dag að Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi hættir í vor.

Áður hefur komið fram að Eyþór Arnalds er hættur við að taka slaginn í vor, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar hættir, Haraldur Sverrisson í Mosfellsbæ ætlar að hætta. Sama máli gegnir um Àsgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra Seltjarnarness og Gunnar Gíslason oddvita sjálfstæðismanna á Akureyri. Á Ísafirði ætlar oddviti Sjálfstæðisflokksins, Daníel Jakobsson, að hverfa úr bæjarmálunum í vor.

Ekki verður betur séð en að um allt land sé upplausn og jafnvel uppgjöf í röðum sjálfstæðismanna. Í einhverjum tilfellum er um eðlilega endurnýjun að ræða þar sem fólk lætur af störfum eftir langan feril en svo er ekki alls staðar.

Ljóst er að í höfuðborginni verður róðurinn þungur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og engu máli skiptir í þeim efnum hver leiðir listann. Sjálfstæðisflokkurinn hefur það fyrir reglu í seinni tíð að stilla upp nýjum leiðtogum í hverjum borgarstjórnarkosningum og fylgið sígur hægt en örugglega niður á við. Eyþór Arnalds kveður nú eftir eitt kjörtímabil og flokkurinn er í næst verstu stöðu sem hann hefur nokkru sinni verið í. Hafi úrslit þingkosninganna í september eitthvert forspárgildi fyrir borgarstjórnarkosningarnar stefnir í að nýtt flokksmet í fylgisleysi verði sett.

Í síðustu kosningum stóð meirihluti flokksins á Seltjarnarnesi tæpt og fékk flokkurinn innan við 50 prósent atkvæða. Lítið þarf út af bregða til að meirihlutinn falli í vor og mikil óeining er í röðum sjálfstæðismanna.

Sjálfstæðismenn hafa löngum kveðið þann söng fyrir kosningar til þings og sveitarstjórna að atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum sé atkvæði gegn vinstri stjórn. Vara þeir einatt við „vinstri slysunum“. Ekki verður auðvelt fyrir frambjóðendur flokksins í vor að kyrja þann söng þegar flokkurinn er byrjaður á sínu öðru kjörtímabili í vinstri stjórn undir forystu formanns Vinstri grænna.

- Ólafur Arnarson