Lay Low stígur á stokk í fyrsta skipti í Grindavík í kvöld – 17.júní

Í Grindavík hefur mannlífið verið að glæðast og menningarlífið að blómstra. Bæst hefur við veitingahúsaflóruna og nú eru tónarnir farnir að óma aftur um bæinn. Það er því kærkomið að geta fagnað 17.júní með því að njóta góðs matar og tónlistar með fjölskyldu og vinum. Mikið líf hefur þegar skapast kringum Festi Bistro&bar og hafa þau Herborg Svana Hjelm framkvæmdastjóri og Birgir R.Reynisson matreiðslumeistari, sem eru nýir rekstraðilar, tekið upp gamla siði staðarins Festi og verið með tónleikahald fyrir matargesti sína. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir sjómannadagshelgina en þá spiluðu Jógvan og Vignir Snær og vöktu mikla lukku.

Tónleikar með Lay Low í kvöld

Nú hafið þið verið með viðburði á hótelinu og boðið uppá tónleika, mun verða fastir liðir í framtíðinni?„Já, við munum gera það. Við viljum halda í þann anda sem var hérna áður fyrr. Næstu tónleikar eru í dag 17.júní en Lay Low mun stíga á stokk og syngja fyrir matargesti.“ Þetta er í fyrsta sinn sem Lay Low spilar í Grindavík og það er óhætt að segja að hér er um að ræða einstakt tækifæri til að koma og hlusta á þessa frábæru listakonu og njóta sælkera matar um leið í tilefni dagsins.

FB-Ernir210607-Festi-06.jpg

Birgir R. Reynisson og Herborg Svana Hjelm hafa lyft grettistaki í Grindavík og opnað glæsilegt hótel og nýjan veitingastað Festi bistro&bar byggðan á gömlum grunni. Bæjarbragurinn blómstrar þessa dagana og nú ómar tónlistin um götur bæjarins./Ljósmyndir Ernir.

Herborg Svana og Birgir sem tóku nýlega við rekstri hótelsins, sem áður hét Geo Hótel og hefur fengið nýtt nafn, Hotel Volcano, opnuðum um leið þennan nýjan veitingastað á hótelinu Festi bar&bistro en hann opnaði með prakt og pomp 4.júní síðastliðinn. Herborg Svana og Birgir eru með töluverða reynslu í veitingarekstri og staðirnir þeirra hafa slegið í gegn, hver með sína sérstöðu.

FB-Ernir210607-Festi-10.jpg

„Við höfum starfað saman í nokkur ár og höfum brallað helling saman. Í dag eigum við og rekum Fjárhúsið á Granda Mathöll og Hlemm Mathöll, Trúnó á Hlemmi Mathöll og þetta er nýjasta verkefnið Hótel Volcano og Fest bistro & bar.“ Herborg segir að þau séu mjög spennt yfir þessu nýja verkefni og það fari vel af stað. „Svæðið hefur upp á svo ótrúlega margt að bjóða og við sjáum ótal tækifæri í hótelrekstrinum. Það eru fá hótel og veitingastaðir í heiminum sem geta státað sig af því að vera með eldgos í bakgarðinum,“ segir Herborg Svana.

FB-Ernir210607-Festi-05.jpg

Ekta bistro matargerð með áherslu á gæði

„Þar sem að við höfum mikla reynslu af veitingarekstri, þá var það alveg borðleggjandi að opna veitingastað. Það var ekki erfitt að velja nafn á staðinn, en húsið var samkomuhúsið Festi áður en því var breytt í hótel og Birgir vann á Festi áður en því var lokað.“ Festi upphaflega var opnað 4. júní árið 1972 og á því langa og skemmtilega sögu. Herborg og Birgir opnuðum svo Festi bistro & bar 4. júní 2021 við mikinn fögnuð heimamanna. Þeim fannst ekki flókið að finna taktinn í matargerðinni og töfruðu fram flottan bistro matseðil. „Við erum með ekta bistro matargerð og leggjum áherslu á einfalda og minni rétti. Okkar reynsla er sú að matarskammtar eru að minnka og viðskiptavinir spái almennt í matarsóun.“

FB-Ernir210607-Festi-02.jpg