Laufey slær í gegn: „Þú hlýtur að vera með hamingjusamasta eldra fólkið á landinu í mat hjá þér“

Óhætt er að segja að íbúar á dvalarheimili aldraðra á Eskifirði séu vel nærðir ef marka má myndir sem Laufey Rós Hallsdóttir, matartæknir og yfirmatráður, deildi í hinn fjölmenna Facebook-hóp Matartips um helgina.

Því er stundum haldið fram að maturinn sem gamla fólkinu er boðið upp á á dvalarheimilum landsins sé ekki ýkja spennandi og jafnvel tilbreytingarsnauður. Laufey afsannar það en í gær bauð hún til dæmis upp á smurbrauð, oftast kallað smørrebrød, í kvöldmat og er óhætt að segja að myndirnar sem hún birti hafi slegið í gegn – enda réttirnir ansi girnilegir að sjá.

„Er þetta ekki ágætis svona sunnudags á dvalarheimili? Smurt brauð, grautur, ávextir, heitt kakó og fleira í morgunmat. Kótelettur með tilheyrandi í hádeginu, nýbakað döðlubrauð í kaffinu og smørrebrød í kvöldmat? segir Laufey í færslu sinni.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og virðast nokkrir eiga sér þann draum að komast í mat hjá Laufey þegar fram líða stundir. „Pant fara á þetta dvalarheimili,“ segir til dæmis í einni athugasemdinni. Þá segir í annarri:

„Mikið rosalega er þetta flott hjá þér, þú hlýtur að vera með hamingjusamasta eldra fólkið á landinu í mat hjá þér. Segi bara takk fyrir að hafa svona mikinn metnað fyrir gera góðan og fallegan mat handa fólkinu þínu á heimilinu. Mættir fara um landið og taka marga staði í kennslu heyrist mér.“

Laufey byrjaði að vinna á dvalarheimilinu í mars 2016 og ákvað svo að skella sér í Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem hún lærði að verða matartæknir. Hún útskrifaðist svo fyrir síðustu jól og tók nýlega við sem yfirmatráður á dvalarheimilinu á Eskifirði.

„Ég er ein í eldhúsinu að elda matinn og geri matseðlana þegar ég er á vakt, svo er ein aðstoðarmatráður sem vinnur á vöktunum á móti mér,“ segir hún og bætir við að sunnudagarnir séu hálfgerðir hátíðardagar og þá reyni hún að hafa meiri tilbreytingu en hina dagana.

„En það er fyrir öllu að setja ekki á borð það sem maður myndi ekki sjálfur vilja borða eða bera á borð fyrir sína nánustu,“ segir hún.