Lára Ómars: „Sam­fé­lagið gæti alveg á­kveðið að breyta þessu“

„Þegar ekki er hægt að borga alla reikninga þarf að velja úr. Þegar valið stendur um að standa skil á húsa­leigu og þurfa svo að sleppa ein­hverju öðru verður það oft ofan á því án hús­næðis lendir fólk á götunni,“ segir fjöl­miðla­konan Lára Ómars­dóttir.

Lára skrifaði hug­leiðingu á Face­book-síðu sína í vikunni sem vakti mikla at­hygli. Vakti hún meðal annars máls á skóla­mál­tíðum barna en Frétta­blaðið greindi frá því á þriðju­dag að grunn­skólar í Reykja­nes­bæ hefðu sótt um styrk til barna­vina­fé­lagsins Hróa hattar fyrir 14 nem­endur vegna greiðslu skóla­mál­tíða. Kom fram í fréttinni að loka hefði þurft á tólf áskriftir að skólamáltíðum það sem af er skólaári.

Sig­ríður Rut Jóns­dóttir, for­maður fé­lagsins, sagði svo við Frétta­blaðið í gær að mikil aukning hefði orðið á beiðnum til fé­lagsins að undan­förnu.

„Við erum að fá beiðnir af öllu landinu en sjáum samt svæða­skiptingu í þessu. Það virðist vera þannig að sum sveitar­fé­lög séu betur til þess fallin að klára þessi mál en önnur. En við tökum glöð við öllum þessum beiðnum og erum á­nægð með það að geta hjálpað.“

Eins og Lára bendir á í færslu sinni þurfa sumir að velja á milli þess að standa skil á húsa­leigu eða hús­næðis­láni og ein­hvers annars.

„Það þýðir að stundum þarf að sleppa því að greiða fyrir skóla­mál­tíðir barna sinna eða aðra líka reikninga og jafn­vel sleppa mörgum reikningum. Þegar lítið er milli handanna er þetta því miður veru­leiki fólks,“ sagði Lára og bætti við að þetta þýddi ekki að fólk væri vont eða lé­legir for­eldrar, bara fá­tækir for­eldrar.

„Oft verður mikið tekju­tap á heimilum vegna at­vinnu­leysis. Þá er allt í einu ekki til fyrir öllum reikningum. Það er bara þannig. Því miður finna svo börnin fyrir þessu, vita að þau geta ekki fengið pening í strætó, geta ekki haldið af­mæli eða þurfa að sleppa skóla­mál­tíðinni. Það þarf samt ekkert að vera þannig. Sam­fé­lagið gæti alveg á­kveðið að breyta þessu.“