Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms

Þann 20. mars staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóm þess efnis að Sigmundur Ern­ir Rún­ars­son, frétta­stjóri Hring­braut­ar, ætti að greiða 250 þúsund krónur í miskabætur til tveggja manna vegna fréttar sem birtist á Hringbraut.is. Fjallaði fréttin um hið svokallaða Hlíðarmál. Frétt Hringbrautar var birt miðvikudaginn 5. nóvember árið 2015 og var unnin upp úr öðrum miðlum. Í frétt 365 miðla voru mennirnir sagðir hafa útbúið sérstaklega íbúð til að brjóta á fólki. Voru blaðamenn 365 miðla dæmdir til að greiða skaðabætur vegna málsins. Hringbraut var síðan dæmt fyrir að vitna í þá frétt sem og að birta framhaldsfrétt sem ekki byggði á traustum grunni.

Mennirnir kröfðust ómerkingar á ummælum í átta liðum. Þrjú ummæli voru dæmd ómerk. Þá var birt á vef Hringbrautar framhaldsfrétt sem bar heitið „Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina.“ Þar var sagt að sú saga gengi í Háskólanum í Reykjavík að mennirnir hefðu í hyggju fleiri fólskuverk.

Í dómi landsréttar segir að í fréttaflutningi Hringbrautar hafi verið byggt á endursögn annarra miðla og fyrirsögn hefði gefið til kynna staðhæfingu sem liti út fyrir að vera byggð á traustum staðreyndargrunni. Var blaðamaður sagður hafa látið vera að sannreyna sögusagnir. Þá segir í dómnum:

„Auk þess sem fyr­ir­sögn frétt­ar­inn­ar bar með sér staðhæf­ingu um að komið hefði verið í veg fyr­ir þriðja brotið.“

Hringbraut var dæmt til að greiða mönnunum 250 þúsund krónur hvor. Þá skal Hringbraut birta forsendur og niðurstöðu dómsins á Hringbraut.is. Niðurstöðu má sjá hér fyrir neðan:

D ó m s o r ð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla og miskabætur sem og um málskostnað.

Birta skal og gera grein fyrir forsendum dóms þessa og dómsorði innan sjö daga á vefmiðlinum www.hringbraut.is að viðlögðum 50.000 króna dagsektum.

Áfrýjandi, Sigmundur Ernir Rúnarsson, greiði stefndu, A og B, hvorum um sig 372.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti er renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, samtals 600.000 krónur.