Lands­menn eru ó­á­nægðastir með þessa ráð­herra - Einn sker sig rækilega úr

Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, er sá ráð­herra í ríkis­stjórninni sem flestir eru ó­á­nægðir með. Kristján Þór er sömu­leiðis sá ráð­herra sem fæstir eru á­nægðir með.

Þetta er sam­kvæmt niður­stöðum Þjóðar­púls Gallup.

Flestir ánægðir með Katrínu

Af ráð­herrum ríkis­stjórnarinnar eru flestir á­nægðir með störf Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra, en rúm­lega 59% lands­manna eru á­nægð með störf hennar.

Þar á eftir kemur Lilja Dögg Al­freðs­dóttir mennta- og menningar­mála­ráð­herra, en nær 54% eru á­nægð með störf hennar, en auk þess eru fæstir ó­á­nægðir með störf hennar.

Í þriðja og fjórða sæti eru Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra og Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra, en um 46% eru á­nægð með störf þeirra.

Á hæla þeim kemur Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, en nær 43% eru á­nægð með störf hans, þá Sigurður Ingi Jóhanns­son sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, en nær 39% eru á­nægð með störf hans, og Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra en um 37% eru á­nægð með störf hennar.

Tæp­lega 35% eru á­nægð með störf Guð­mundar Inga Guð­brands­sonar um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra, Ás­mundar Einars Daða­sonar fé­lags- og barna­mála­ráð­herra og Guð­laugs Þórs Þórðar­sonar utan­ríkis- og þróunar­sam­vinnu­ráð­herra, en að­eins rúm­lega 10% eru á­nægð með störf Kristjáns Þórs Júlíus­sonar sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra.

Kristján Þór sker sig úr

Þegar ó­á­nægja er skoðuð kemur í ljós að lang­flestir eru ó­á­nægðir með störf Kristjáns Þórs, eða nær 62%. Rúm­lega 35% eru ó­á­nægð með störf Ás­laugar Örnu og Bjarna Bene­dikts­sonar, rúm­lega 31% með störf Guð­mundar Inga, 28% eru ó­á­nægð með störf Guð­laugs Þórs, nær 27% með störf Ás­mundar Einars og nær 26% með störf Svan­dísar og Sigurðar Inga.

Þær þrjár sem flestir eru á­nægðir með eru einnig fæstir ó­á­nægðir með. Slétt 21% er ó­á­nægt með störf Katrínar, rúm­lega 18% eru ó­á­nægð með störf Þór­dísar Kol­brúnar og rúm­lega 17% eru ó­á­nægð með störf Lilju Daggar.

Í Þjóðar­púlsi Gallup er reiknuð út meðal­tals­ein­kunn út frá hlut­falli á­nægðra og ó­á­nægðra. Katrín Jakobs­dóttir trónir þar á toppnum með ein­kunnina 4,6, Lilja Dögg Al­freðs­dóttir er með ein­kunnina 4,5, Þór­dís Kol­brún með 4,3, Svan­dís með 4,2, Sigurður Ingi með 4,1, Guð­laugur Þór, Ás­mundur Einar og Bjarni með 4,0, Ás­laug Arna og Guð­mundur Ingi með 3,9 og Kristján Þór rekur lestina með 2,9.