Læknir vill ekki skima ferðamenn: „Augljós sóun á almannafé!“

8. júlí 2020
10:48
Fréttir & pistlar

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir segir furðulegt að Landspítalinn muni taka að sér að skima fríska ferðamenn við landamæri.

„Hvað er næst,“ spyr hann. „Að við sinnum þrifum í Smáralind?“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greindi frá því í opnu bréfi á mánudaginn að fyrirtækið myndi hætta að sinna skimunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í gær að nauðsynlegt

væri að halda skimun á­fram við landa­mæri Ís­lands út júlí­mánuð. Ein lausn gæti verið að láta Sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítalans keyra tíu sýni saman í einu.

Sjá nánar: Stefnt á að halda skimun á­fram: „Ýmsir mögu­leikar fyrir hendi“

Hafa næg verkefni á sinni könnu

Ragnar Freyr bendir á að heilbrigðisstarfsfólk Landspítalans hafi næg verkefni á sinni könnu nú þegar. Enn fremur taki þessar ráðstafanir ekki mið af þeirri þekkingu sem búið er að afla síðastliðna vikur og mánuði; að Íslendingar sé líklegri til að smita en ferðamenn.

„Ferðamenn virðast ekki smita að neinu ráði. Væri það staðreyndin þá væru tilfelli að dúkka upp hér og þar í samfélaginu. Ég dreg alltént þá ályktun að það sé óþarfi að skima þá. Og kostar fúlgur fjár,“ skrifar Ragnar á Facebook.

Hann telur að best væri að skipa ferðamenn í 5 daga sóttkví, þannig væri hægt að ná langstærstum hluta þeirra sem eru með COVID-19. Þau sem ekki vilja skimun eða reynast jákvæðir yrðu þá skipaðir í lengra sóttkví.

„Það að LSH verji milljörðum í skimanir er augljós sóun á almannafé!“