Krug­man segir að vendi­punkturinn hafi verið tíst Donald Trump þann 17. apríl

Banda­ríski hag­fræðingurinn Paul Krug­man segir að vendi­punkturinn í stríði Banda­ríkjanna við kórónu­veiruna sem veldur CO­VID-19 hafi komið þann 17. apríl síðast­liðinn.

Krug­man, sem hlaut Nóbels­verð­launin í hag­fræði árið 2008, er dálka­höfundur hjá New York Times en í nýjustu grein sinni reynir hann að svara því hve­nær stríðið gegn CO­VID-19 tapaðist og hvers vegna Banda­ríkin eru jafn illa stödd og raun ber vitni í bar­áttunni gegn út­breiðslu veirunnar. Hvergi í heiminum hafa jafn mörg smit greinst og þá virðist far­aldurinn geisa allt að því stjórn­laust í mörgum ríkjum Banda­ríkjanna.

„Hve­nær byrjuðu Banda­ríkin að tapa stríðinu gegn kórónu­veirunni? Hvernig komum við okkur í þá að­stöðu að fá ekki einu sinni að ferðast til Evrópu?“ segir Krug­man í byrjun greinar sinnar.

„Ég held að vendi­punkturinn hafi komið þann 17. apríl síðast­liðinn, daginn sem Donald Trump tísti: FRELSUM MIN­NESOTA“ sem hann fylgdi svo eftir með tístinu: „FRELSUM MICHIGAN“.

Á þessum tíma kallaði Trump eftir því að al­menningur myndi mót­mæla þeim sótt­varna­að­gerðum sem ríkis­stjórar höfðu gripið til með það fyrir augum að hemja út­breiðslu veirunnar.

Krug­man segir að með þessu hafi hann – og Hvíta húsið – lýst yfir stuðningi við mót­mælendur sem voru ó­sáttir við að­gerðir yfir­valda í um­ræddum ríkjum. Svo vill til að Demó­kratar fara með völd í þessum ríkjum og bendir Krug­man á að þeir hafi staðið fastir á sínu, þrátt fyrir á­kall for­setans. Það hafi hins vegar ríkis­stjórar annarra ríkja, undir stjórn Repúblikana, ekki gert.

„Fljót­lega eftir þetta af­léttu ríkis­stjórar Arizona, Texas og Flórída tak­mörkunum sínum að hluta til,“ segir hann og bendir á að sums staðar hafi ekki verið gerð krafa um að fólk bæri and­lits­grímur á sam­komum.“

Krug­man segir að ríkis­stjórn Donalds Trump beri mikla á­byrgð á stöðu mála. Al­var­leg út­breiðsla far­aldursins í New York á fyrstu mánuðunum hefðu átt að kenna stjórn­völdum ær­lega lexíu.

„Í byrjun júní fór til­fellum aftur fjölgandi í Arizona og Texas. Ríkis­stjórar þessara ríkja þver­skölluðust við að bregðast við og sögðust hafa full­komna stjórn á hlutunum. Þann 16. júní birtist svo skoðanapistill í The Wall Street Journal eftir Mike Pence þar sem hann lýsti því yfir að seinni bylgja CO­VID-19 væri skáld­skapur. Miðað við það hvernig ríkis­stjórn Donalds Trump hafði brugðist við fram til þessa var ljóst að seinni bylgjan var handan við hornið – sem var ein­mitt raunin.“

Hann bendir á að staða máli hafi versnað til mikilla muna á undan­förnum þremur vikum. Að hluta til megi kenna því um að menn voru of fljótir á sér að af­létta hinum ýmsu tak­mörkunum en einnig þau skila­boð stjórn­valda til al­mennings að hættan væri liðin hjá.

Pistil Krug­mans má lesa í heild sinni á vef New York Times.