Krónan fékk á baukinn í Matartips: Þá kom forstjórinn og svaraði

Verslunarkeðjan Krónan fékk á sig harða gagnrýni í hópnum Matartips! á Facebook, netverji birti mynd af Nauta-Tomahawk steik sem búið var að lækka í verði þar sem varan var útrunnin. Fyrra verðið var 3.412 kr. Var hún svo merkt: „Síðasti séns! Verð nú: 4.449 kr. Ferskvara útrunnin. Verð áður: 6.356 kr.“ Sá miði var við hliðina á gamla miðanum.

„Það er eitthvað bogið við þetta,“ sagði netverjinn í færslu með myndinni.

Annar sagði: „Það er engu líkara en að það hafi verið bílasali að verðmerkja.“

Sögðust nokkrir ætla aldrei aftur að versla í Krónunni eftir að hafa séð þessa mynd.

Aðrir komu Krónunni til varnar:

„Af hverju þarf alltaf pósta hér?,“ spyr starfsmaður verslunarinnar. „Sem starfsmaður í Krónunni mæli ég frekar með þú mætir í þá búð sem þú keyptir ef þér finnst þetta eitthvað bogið og þetta verður lagað hiklaust.“

Annar tók undir: „Bara án gríns en þá klappaði ég upphátt hérna heima, orðið svo þreytt hvað fólk kvartar hérna og sagði kannski ekki orð við starfsmenn. Við sem vinnum bítum ekki. Takk fyrir að segja þetta.“

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Krónunnar, mætti svo sjálfur í athugasemdakerfið og sagði:

„Það hefur einhver grínisti fært miða á milli - svona gerir Krónan ekki.“