Kröfur Framsóknar um breytingar ganga ekki upp

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík birtir nú holskeflu auglýsinga með nýja frambjóðandanum sínum, Einari Þorsteinssyni sjálfstæðismanni úr Kópavogi. Hann gengur um og segir sem satt er að Reykjavík sé yndisleg og falleg borg og svo er spurt: „Er ekki kominn tími á breytingar?“ Spurningin er í þversögn við það sem á undan er komið! Úr því að allt er svona yndislegt, þá er varla mikil þörf fyrir breytingar!

Hitt er svo annað mál að Framsóknarflokkurinn er síðasta stjórnmálaaflið á Íslandi til að standa fyrir breytingum. Þurfi að gera breytingar í Reykjavík þá yrði að kalla til aðra stjórnmálaflokka en Framsókn því að flokkurinn er þekktur fyrir að hamla gegn breytingum eins og dæmin sýna.

Á undanförnum árum hefur Framsóknarflokkurinn staðið í vegi fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að þjóðin fengi sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlind sinni. Flokkurinn hefur staðið í vegi fyrir breytingum á styrkjakerfi í landbúnaði og tryggt áframhaldandi styrkjasukk í greininni. Þá hefur Framsóknarflokkurinn barist í áratugi fyrir því að viðhalda þeim ójöfnuði milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins að Reykvíkingar og nágrannar hafa hálft atkvæði saman borið við dreifbýlið.

Við erum svipt helmingi kosningarréttar okkar í boði Framsóknar. Reykvíkingar hafa ekkert að gera við slíkan stjórnmálaflokk í borgarstjórn. Kjósendur tóku þá afstöðu að hafna flokknum fyrir fjórum árum með því að velja engan fulltrúa frá Framsókn í borgarstjórn. Það er rökrétt og prýðileg stefna. Því ekki að halda henni áfram?

Að svipta fólk kosningarrétti er ekkert annað en spilling. Gildir þá einu hvort tekinn er hálfur eða allur kosningaréttur af hluta þjóðarinnar eins og Framsókn hefur barist fyrir og fengið framgengt í áratugi. Í sveitarstjórnarkosningum hafa allir heilt atkvæði. Sama gildir um forsetakosningar. Þá ríkir jöfnuður milli kjósenda, óháð búsetu. Að sjálfsögðu á hið sama að gilda í Alþingiskosningum: Einn maður – eitt atkvæði. En Framsóknarflokkurinn hefur komið í veg fyrir það og er þar af leiðandi spilltasti stjórnmálaflokkur Íslands.

Í skoðanakönnunum hefur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík verið að mælst með mun meira fylgi en fyrir fjórum árum þegar þrjú prósent kjósenda studdu flokkinn. Framsókn mældist með ellefu prósent í gær hjá Stöð 2. Rétt er að vekja athygli á því að þessi fylgisaukning stafar ekki af því að kjósendur aðhyllist stefnu flokksins. Hér er um flóttafylgi að ræða. Miðflokkurinn er að leysast upp í Reykjavík og færist fylgi hans að mestu yfir á Framsókn. Þá er um að ræða augljósan flótta frá Sjálfstæðisflokknum vegna óánægju með lista flokksins og málflutning. Framsókn nýtur góðs af þeim flótta.

Framsóknarflokkurinn er flokkur kyrrstöðu og stöðnunar. Hann getur ekki komið neinu góðu til leiðar í Reykjavík. Engum tilgangi þjónar að gera breytingar breytinganna vegna þó að dreifbýlisflokkinn Framsókn langi að koma sjálfstæðismanni úr Kópavogi að í borginni á sínum vegum.

- Ólafur Arnarson.