Kristrún: „Ég er að íhuga alvarlega að bjóða mig fram til formanns“

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, reiknar með að upplýsa um lokaákvörðun sína varðandi formannsframboð í Samfylkingunni eftir verslunarmannahelgi.

„Ég er að í­huga al­var­lega að bjóða mig fram til formanns, en ég vil fyrst heyra í mínum fé­lögum í flokknum og kanna hvort fólk vilji koma með í þetta stóra verk­efni. Ef ég læt slag standa þá geri ég þetta ekki ein,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið í dag.

Nafn hennar og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hafa verið nefnd oftast nú þegar styttist í að nýr formaður taki við stjórnartaumunum í Samfylkingunni. Logi Einarsson hefur þegar tilkynnt að hann ætli að láta af formennsku í haust.

Kristrún ítrekar að formannskosningin snúist um málefni og áherslur fremur en einstakar persónur. Hún hafi þó fylgst með umræðunni og þykir vænt um að horft sé til hennar sem mögulegs formanns.

Spurð hvort einu gildi hvaða á­kvörðun Dagur B. Eggerts­son muni taka um fram­boð, af eða á, segir Krist­rún að á­kvörðun hennar snúist fyrst og fremst um hvort hún upp­lifi sam­stöðu meðal flokks­fé­laga um þær hug­myndir sem hún hafi um að styrkja sam­fé­lagið.

„Við Dagur erum góðir vinir og vinnum vel saman. Hann mun taka sína á­kvörðun út frá eigin brjósti.“

Samfylkingin fékk sex þingmenn kjörna í síðustu kosningunum og segir Kristrún að flokkurinn vilji meira en það.

„Það eru miklir mögu­leikar til staðar fyrir flokkinn, annars væri ég ekki að í­huga þetta verk­efni.“