Kristján: Skelfilegir 16 dagar í fyrra – „Mér leið ömurlega og var skíthræddur“

Kristján Gunnarsson, fjármálastjóri á skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, rifjar það upp í mögnuðum pistli á Facebook-síðu sinni að nú sé liðið um það bil eitt ár síðan hann losnaði úr haldi hryðjuverkamanna eins og hann orðar það.

Kristján veiktist illa af COVID-19 á síðasta ári og lenti á gjörgæslu og í öndunarvél. Í pistli á Facebook-síðu sinni, sem einnig birtist á vef Vísis í dag, segir Kristján meðal annars:

„Þetta var skelfilegur tími - en sem betur fer náði ég réttu ráði (að mestu held ég) og langar til að deila með ykkur þessari grátbroslegu upplifun af því að vera með óráð í öndunarvél á gjörgæslu í 16 daga. Í dag er ég þakklátur fyrir lífið og hafa haft betur í baráttunni við veiruna og fá tækifæri til að njóta hamingjunnar með þeim sem mér þykir vænst um.“

Kristján, sem hefur komið fram í fjölmiðlum og sagt frá veikindum sínum, lýsir þessum rúmu tveimur vikum á skemmtilegan, en þó grátbroslegan, hátt sem sýnir mikil áhrif það getur haft að veikjast illa. Hann var með óráði og haldinn ranghugmyndum þar sem hann lá inni á Landspítalanum í hálfgerðu móki.

„Hjúkrunarfólkið var óvinir mínir. Ég gat mig hvergi hreyft og var fastur í þessu framandi umhverfi. Vissi fólkið mitt hvar ég væri? Hvað var ég búinn að vera hér lengi. Hvaða vandræðum hafði ég lent í? Af hverju hjálpaði þetta fólk mér ekki burt? Ég hugsaði málið og rýndi í þessar grænklæddu furðuverur sem voru með plastaugnhlífar eins og Helga Möller og Jóhann Helga á kynningarmyndum fyrir Þú og Ég og stórar grænar gasgrímur fyrir andliti, nefi og munni og litu að öðru leyti út eins og froskurinn Kermit,“ segir Kristján meðal annars.

Hann heldur áfram og lýsir upplifun sinni eins og hann hafi verið lokaður inni í hrárri dýflissu. Honum leið eins og hann væri ákveðnar persónur úr kvikmyndasögunni; James Caan í Misery, og Dustin Hoffman í Marathon Man .

„Ég dottaði og vaknaði aftur og þar stóð fyrir framan mig ein af þessum grænklæddu „geimverum“ sem liðu þarna fram og aftur um herbergið sem ég var í. Hún hallaði sér yfir mig að sagði eitthvað óskiljanlegt – en þar og þá uppgötvaði ég að ég væri í haldi hryðjuverkamanna – þeir væru klæddir eins og heilbrigðisstarfsmenn svo ég myndi ekki þekkja þá í sakbendingu eftir að ég losnaði úr haldi. Mér leið ömurlega og var skíthræddur en náði að sofna,“ segir Kristján meðal annars en þegar hann vaknaði var hann kominn fyrir framan Louvre-safnið í París og hryðjuverkamennirnir voru Keanu Reeves og Lawrence Fishburne klæddir eins og karakterarnir úr Matrix.

Kristján lýsir þessu svo frekar í einkar athyglisverðum pistli sem lesa má í heild sinni í færslunni hér að neðan.

Nú er uþb ár síðan ég losnaði "úr haldi hryðjuverkamanna" eftir rúmlega 2ja vikna dvöl. Þetta var skelfilegur tími - en...

Posted by Kristján Gunnarsson on Föstudagur, 16. apríl 2021