Kristján segir þennan hóp verða fyrst undir: „Ekki fólkið sem flýgur í sólina á Tenerife“

Kristján Þórður Snæ­bjarnar­son, for­seti ASÍ, segir vaxta­hækkun Seðla­bankans galna í nýrri grein á Vísi.

Greint var frá því í morgun að peninga­stefnu­nefnd bankans hefði hækkað vextina um eitt prósent og eru stýri­vextir því komnir í 7,5 prósent.

„Þá miklu verð­bólgu sem nú ríkir má í senn rekja til heima­til­búins vanda en þó að lang­stærstum hluta til ytri að­stæðna; heims­far­aldurs og inn­rásar Rússa í Úkraínu. Verð­lag hefur hækkað gríðar­lega og þar með út­gjöld heimilanna í landinu. Mörg heimili eru í miklum vanda og líkt og jafnan áður lenda af­leiðingar þessa á herðum þeirra sem síst mega við slíkum á­föllum; tekju­lágum heimilum, leigj­endum og þeim sem ný­verið hafa fest kaup á fyrstu fast­eign við hátt raun­verð. Þessir við­kvæmu hópar standa frammi fyrir bráða­vanda af völdum verð­bólgunnar sem bregðast þarf við. Þetta er ekki fólkið sem flýgur í sólina á Tenerife,“ skrifar Kristján.

„Á sama tíma er því haldið fram að vextir til þeirra sem eiga fjár­magnið megi ekki vera nei­kvæðir að raun­virði. Þetta þýðir á manna­máli að fólkið sem á fjár­magnið má alls ekki þurfa að búa við það að fá minni á­vöxtun en sem nemur að minnsta kosti verð­bólgu síðustu 12 mánaða! Hvaða rök eru fyrir því að á sama tíma og draga þarf úr þenslu í hag­kerfinu og mikill fjöldi fólks berst við að ná endum saman séu fjár­magns­eig­endum færðir enn hærri vextir til þess að geta haldið sinni neyslu á­fram? Minnumst þess að ó­jöfnuður jókst í kjöl­far CO­VID-far­aldurs og kaup­máttur efstu tíundar jókst lang mest í tekju­stiganum. Auð­veld­lega mætti beita sköttum til að draga úr þenslu og dreifa byrðum á breiðu bökin,“

Kristján segir að það sé ekkert eðli­legt við á­stand þar sem verð­bólga er 10%.

„Það er ekkert eðli­legt við að raun­vextir séu já­kvæðir við 10% verð­bólgu, hvorki til skemmri né lengri tíma. Því síður er það eðli­legt að fyrir­tæki á fá­keppnis­mörkuðum nýti á­standið til að auka á­lagningu og arð­semi á veð­bólgu­tímum.“

„Aug­ljóst er að beita þarf öðrum verk­færum til þess að bregðast við þeim vanda sem sam­fé­lagið stendur frammi fyrir.

Nú er kominn tími til þess að ríkis­stjórnin, efsta lag sam­fé­lagsins og stjórn­endur fyrir­tækja hætti að rétt­læta gegndar­lausar verð­hækkanir. Hugsunin að í lagi sé að hækka verð vegna verð­bólgunnar er til þess fallin að auka verð­bólgu. Þetta for­ystu­fólk þarf að grípa inn í og hjálpa til við að tala verð­bólguna niður!“

„Seðla­banki Ís­lands er á rangri leið með sí­felldum og öfga­kenndum stýri­vaxta­hækkunum. Nýjasta hækkunin er til þess fallin að þrýsta megin­þorra skuld­settra heimila yfir í verð­tryggt lána­um­hverfi. Það mun draga úr virkni stýri­vaxta Seðla­bankans og þannig ýta undir verð­bólgu á komandi mánuðum í stað þess að draga úr henni.“

„Sinnu­leysi stjórn­valda gagn­vart af­komu al­mennings hefur lengi verið okkur í verka­lýðs­hreyfingunni undrunar­efni. Nú verður ekki lengur hjá því komist að takast á við þann mikla og vaxandi vanda sem verð­bólga og vaxta­hækkanir valda þeim hópum sem verst standa. Málið þolir enga bið,“ skrifar Kristján.