Kristján og Sig­ríður: Nú er nóg komið – „Bæjar­stjórinn okkar er harð­stjóri“

„Eftir einungis tvö ár höfum við sagt okkur frá öllum trúnaðar­störfum fyrir Sel­tjarnar­nes­bæ og gerum svo með trega,“ segir í grein eftir Kristján Hilmi Baldurs­son og Sig­ríði Sig­mars­dóttur í nýjasta tölu­blaði Nes­frétta.

Kristján er for­maður Baldurs, fé­lags ungra sjálf­stæðis­manna á Sel­tjarnar­nesi og í stjórn full­trúa­ráðs Sjálf­stæðis­fé­laganna og Sig­ríður er vara­maður í bæjar­stjórn fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn. Í grein sinni skrifa þau um stöðu mála á Sel­tjarnar­nesi en nokkuð hefur verið rætt um halla á rekstri bæjarins. Þau hafa nú sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir bæinn.

„Við höfum oft staðið fyrir framan aðra for­eldra, íbúa eða kunningja og reynt að svara spurningunni “Hvernig datt þér í hug að…” Þú stendur fyrir framan við­komandi og veist jafn­vel ekki hvað hann vitnar í og hugsar “ég? hvað gerði ég?” og í ljós kemur að það er fimmtu­dags­morgun og bæjar­stjórn sam­þykkti eitt­hvað á fundinum sínum deginum áður. Áður en þú veist af ertu farinn að af­saka eitt­hvað sem þú veist ekki deili á því síðustu upp­lýsingar sem þú fékkst voru ekki nógu ítar­legar eða rangar. Guð má vita, ekki fékkst þú að taka þátt í á­kvörðuninni,“ segir í greininni.

Þá fær bæjar­stjórinn Ás­gerður Hall­dórs­dóttir sinn skerf af gagn­rýni í grein þeirra Kristjáns og Sig­ríðar.

„Bæjar­stjórinn okkar er harð­stjóri. Hún hlustar ekki á sam­starfs­fé­laga sína, bæjar­búa sem hún á að þjóna eða sína nánustu trúnaðar­menn. Hún er ey­land. Dag einn þarf maður að draga línuna í sandinn og hætta þessari með­virkni sem myndast hefur innan meiri­hluta bæjar­stjórnar Sel­tjarnar­ness. Eld­móðurinn, krafturinn, viljinn og metnaðurinn sem var til staðar við upp­haf ferða­lagsins, stefnu­skráin og gildi flokksins allt fokið út í veður og vind með norðan­áttinni.“

Þá segir að van­hugsaðar á­kvarðanir án sam­ráðs og á­kvarðana­fælni endur­spegli vinnu­brögð nú­verandi meiri­hluta bæjar­stjórnar. Þá hafi á­standinu vegna CO­VID-19 verið kennt um halla­rekstur.

„Nú, Co­vid er mætt og því verða allar af­sakanir um lé­legan rekstur bendlaðar við far­aldurinn en ekki van­hæfa stjórnar­hætti bæjar­stjórnar. Hverjar eru af­sakanirnar fyrir síðustu tvö ár? Eitt best rekna sveitar­fé­lag á landinu, sveitar­fé­lag sem horft var til sem fyrir­myndar í rekstri, má nú líkja við Reykja­vík 2.0. Hags­munir Sel­tirninga eru ekki varðir gegn á­kvörðunum borgar­yfir­valda og þegar í­trekað er kallað eftir við­brögðum bæjar­stjóra ná frétta­menn ekki einu sinni í hana og af því stærir hún sig. Er ekki undar­legt að fagna því að svara ekki fyrir and­mæla- og á­kvörðunar­leysi?“

Í lok greinar sinnar segja þau: „Við þökkum alla þá vel­vild og traust sem bæjar­búar sýndu okkur í síðast­liðnum kosningum. Okkur þykir leitt að hafa brugðist hlut­verki okkar. Okkur þykir leitt að hags­munir bæjar­búa séu ekki í há­vegum hafðir. Okkur þykir leitt að styrk fjár­mála­stjórn er ekki lengur til staðar. Síðast en ekki síst þykir okkur leitt að segja af okkur en nú er komið nóg.“

Greinina má lesa í heild á síðum 12-13 í Nes­fréttum.