Kristján gleymir aldrei augna­blikinu á hótelinu í New York

Kristján Guy Bur­gess, sér­fræðingur í al­þjóða­stjórn­málum, rifjar upp skemmti­lega sögu af því þegar hann hitti Joe Biden, sem tók við em­bætti Banda­ríkja­for­seta í gær, á hóteli í New York fyrir margt löngu.

Kristján segir að í minningunni séu eftir­farandi orð þau einu sem hann hefur átt við nýjan for­seta Banda­ríkjanna. „Mætti ég fá að stinga tölvunni minni í sam­band hérna?"

Kristján segir á Face­book að þeir fé­lagar hafi verið í setu­stofu á frekar litlu hóteli í New York, Biden djúpt sokkinn í ein­hver gögn en hann sjálfur með raf­magns­lausa tölvu að reyna að vinna.

"Sure," sagði Biden og ég klöngraðist eitt­hvað í kringum hann og kom tölvunni í hleðslu. Tveir karlar, annar reyndur og amerískur, hinn ungur og ís­lenskur könkuðust þannig á en lífið hélt á­fram og þetta augna­blik hefði orðið gleyms­kunni að bráð ef sá ungi hefði ekki verið svona fullur hrifningar af hinum reynda banda­ríska þing­manni.“

Kristján rifjar svo upp að hann hafi séð hann nokkru síðar taka við út­nefningu sem vara­for­seta­efni Baracks Obama á flokks­þingi Demó­krata árið 2008. Það var meiri­háttar upp­lifun, að sögn Kristjáns.

„Síðustu misserin hef endur­vakið á­huga minn á Biden og sögu hans, lesið margt og hlustað og horft á við­töl og ræður. Við hvert skipti eykst virðing mín fyrir manninum, fyrir sögu hans, hvernig hann hefur tekist á við stærri erfið­leika en nokkur ætti að þurfa að reyna. Hann missti það sem var dýr­mætast af öllu, eigin­konu í blóma lífsins og unga dóttur í bíl­slysi, og síðar elsta soninn úr hræði­legum sjúk­dómi, en tókst að vinna með sorgina og missinn og halda á­fram og hefur nú náð því em­bætti sem hann stefndi að frá unga aldri.“

Kristján segir að pólitík hans um sam­vinnu og sættir án þess að hvika frá þeim gildum sem gerðu hann að demó­krata falli honum í geð.

„Hann tekst á við hlutina eins og þeir eru, ekki eins og þeir ættu að vera og stefnir stöðugt að því að miða málunum á­fram,“ segir Kristján sem hvetur sem flesta til að horfa á ræðu Bidens í gær þar sem hann kallar á að Banda­ríkja­menn sam­einist á ný.

„Munurinn á hinum nýja for­seta og þeim sem yfir­gaf Hvíta húsið í gær gæti ekki verið meiri,“ segir Kristján sem ræddi for­seta­skiptin ein­mitt í Kast­ljósi í gær­kvöldi.