Kristján Fiskikóngur lýsir yfir stríði á hendur bensínstöð: „Fokking óþolandi“

Fiskikóngurinn og pottafurstinn Kristján Berg Ásgeirsson er ekki par sáttur við Atlantsolíu og hefur sagt stríð á hendur bensínstöðinni. Ástæðan er jólaplata Atlantsolíu og segir kóngurinn að þeir séu að herma eftir sér.

„Atlantsolía getur ekki hætt að herma!! Fokking óþolandi…(sorrí blótið),“ segir hann.

„Ég gef út eitt jólalag með Sverri Bergmann og þeir þurfa að gefa út heila plötu.“

Það er augljóst að það sýður á pottunum hjá Kristjáni.

„Hvað er að þessum gæjum hjá Atlantsolíu. Meiri hermikrákurnar, þessi gæjar,“ segir hann.

„Þetta er orðið gott. Reynið að finna upp á einhverju nýju sjálfir, ekki herma alltaf eftir litla manninum. Gleðileg olíujól, þetta verður stríð sem þið tapið. Sá sem fær fleiri spilanir á sitt lag vinnur. Þið getið lagt öll ykkar lög saman og tölurnar fyrir þau. Ég verð bara með mitt skötulag.“