Kristján: „Ég mun aldrei elska neina eins og ég elska Svölu“ - Svona fangaði hann hjarta hennar

„Ég held að enginn geti verið viss alveg um leið, en ég þurfti ekki meira en örfáa daga til að átta mig á því að hún væri sú rétta fyrir mig,“ segir Kristján Einar Sigurbjörnsson, unnusti tónlistarkonunnar Svölu Björgvinsdóttur, í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Kristján og Svala vekja athygli hvert sem þau fara enda bæði glæsileg. Kristján varð 23 ára í vikunni og hefur aldursmunurinn verið nokkuð á milli tannanna á fólki en Kristján hefur aldrei látið álit annarra hafa áhrif á sig.

„Mörgum gæti fundist það skipta máli, en það skiptir sjálfan mig engu máli. Við finnum stundum fyrir fordómum en þó mun meira fyrir stuðningi frá alls konar fólki sem trúir og veit að ástin spyr ekki um aldur. Ég hef aldrei látið álit annarra hafa áhrif á mínar ákvarðanir í lífinu og er sama um allt umtal. Ég geri það sem gerir mig hamingjusaman, sama hvað öðru fólki finnst um það.“

Kristján og Svala kynntust í lok síðasta sumars í gegnum sameiginlega vini. Þau fóru að spjalla saman á Instagram og urðu fljótt góðir vinir. Eitt leiddi svo af öðru. Aðspurður hvernig hann fangaði hjarta Svölu segir hann:

„Það var reyndar ótrúlega létt því það eina sem ég gerði var að vera ég sjálfur. Og ótrúlegt en satt, þá virkaði það.“

Kristján er fæddur og alinn upp á Húsavík og eina dóttur sem hann eignaðist þegar hann var 19 ára.

„Það breytti lífi mínu og gaf mér bestu gjöf sem nokkur maður gæti óskað sér. Ég tek þátt í uppeldi hennar eins mikið og föðurrétturinn leyfir. Dóttir mín er eitt það besta sem hefur komið fyrir mig og mig langar að eignast fleiri börn í framtíðinni,“ segir hann meðal annars.

Kristján telur að hann hafi hitt sálufélaga sinn í Svölu. „Það er enginn vafi á því að ég mun aldrei elska neina eins og ég elska Svölu. Í henni hitti ég sálufélaga minn og ég trúi því að ef maður er heppinn, þá gerist slíkt bara einu sinni á lífsleiðinni.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Fréttablaðinu í dag.

Fleiri fréttir