Kristinn hreinsar til í vinahópnum: „Þolinmæði mín gagnvart kjaftæðinu er þrotin“

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, gagnrýndi Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, harðlega á Facebook-síðu sinni í gær. Stefán var gestur Silfursins á RÚV þar sem umfjöllunarefnið var meðal annars hið eldfima ástand milli Ísraels og Palestínu.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, var einnig gestur þáttarins og voru hún og Stefán Einar ósammála um hver bæri meiri ábyrgð á því ástandi sem nú er á Vesturbakkanum. Stefán Einar sagði að Hamas-samtökin notuðu óbreytta borgara sem hernaðarskjöld á meðan Rósa Björk sagði að Ísraelsmenn væru að níðast á minni máttar.

Kristinn Hrafnsson gaf Stefáni Einari ekki háa einkunn eftir þáttinn. „Það er nú aldeilis ekki komið að tómum kofanum hjá þessum manni fyrir þá sem leita að innantómu og merkingarlausu orðasalati um hvað þetta mál þarna í Ísrael sé nú óskaplega flókið og að Hamas séu nú aldeilis hroðaleg hryðjuverkasamtök.“

Kristinn gagnrýndi einnig sinn gamla vinnustað, RÚV, fyrir að kalla til Stefán Einar.

„Voðalega er þessi ámátlega tilraun fjölmiðla til að þykjast nálgast málefni af hlutlægni með því að kalla til ruglukolla - jafnvel siðleysismenntaða - , þreytt, innantóm og uppfull af virðingarleysi gagnvart fórnarlömbum glæpaverkana. Þolinmæði mín gagnvart kjaftæðinu er þrotin. Ef einhver á mínum vinalista hér á fésinu finnur hjá sér löngun til að verja þennan mann eða voðaverk Ísraelsstjórnar má viðkomandi afvina mig hið snarasta og spara mér ómakið. Mælirinn er fullur,“ sagði Kristinn.

Það er skemmst frá því að segja að Kristinn tók til á vinalistanum eftir að hafa skrifað færsluna sem fjölmargir skrifuðu athugasemdir við. Ljóst er að fólk skiptist í tvær fylkingar eftir því hvort stuðningur viðkomandi liggur hjá Ísrael eða Palestínu. Í þræðinum sagði Kristinn:

„ATH. Ég var rétt í þessu að eyða nokkrum kommentum, blokkera aðra og henda út af vinalista - allt í samræmi við viðvörun í innlegginu upphaflega. Ég lít á þennan vettvang sem minn heimavöll - part af mínu heimili þó að það sé í sýndarveruleika netsins. Ef fólk fyllist löngun til að koma heim til mín og opinbera með hástöfum að það sé vitlaust, siðlaust og skítlegt, hendi ég því öfugu út. Punktur. Það getur svo vælt eins og stungin grís úti á stétt um ósanngirni heimsins, ritskoðun og bankið í ofnunum. Vorhreingerning er hafin.“