Kristinn hefst við úti í garði eftir útburð af heimili sínu

Kristinn Kristinsson, íbúi á Ólafsfirði býr nú í tjaldi á Ólafsfirði efir að hafa verið borinn út af heimili sínu. Um er að ræða mann sem tengist eldsvoða á Ólafsfirði að því er fram kemur í DV sem ræddi við Kristinn um málið. Þar segist Kristinn hafa aðsetur ýmist í garði móður sinnar eða systur, þar sem félagsmálayfirvöldum bæjarins hefur ekki tekist að finna honum samastað.

Í frétt DV er vísað til bruna sem varð í kjallaraíbúð Kristins aðfararnótt 18. janúars síðastliðins.

„Taldi Kristinn að íkveikjunni hefði verið beint að sér og það hefði verið gerð tilraun til að brenna hann inni. Kristinn var sakaður um að láta mjög ófriðlega á vettvangi og trufla störf slökkviliðsins. Myndband sem var í dreifingu í vetur sýndi hann rífast við lögreglumann sem reyndi að róa hann niður og fá hann til að vera ekki í vegi fyrir slökkviliðsmönnum.“ Segir í frétt DV um málið.

Í mars birti DV svo frétt þess efnis að eigandi kjallaraíbúðarinnar væri að reyna að losna við hann úr íbúðinni, þar sem Kristinn borgaði ekki leigu og gengi illa um. Auk þess væri íbúðin óíbúðarhæf vegna asbest mengunnar í kjölfar brunans.

Þá kemur fram að sveitarfélagið tók ábyrgð á leigunni, enda Kristinn skjólstæðingur félagsmálayfirvalda bæjarfélagsins. Eigandi íbúðarinnar var hins vegar ósáttur við aðgerðaleysi yfirvalda og vildi að leigusamningnum yrði rift og Kristni komið úr húsnæðinu.

Hann virðist hafa fengið vilja sínum framgengt og Kristinn kominn upp úr kjallaranum og út í garð.