Kristín Þóra vissi að eitthvað væri að: „Ég varð mjög, mjög hrædd“

Kristín Þóra Haraldsdóttir leikkona opnaði sig upp á gátt í þættinum Okkar á milli á RÚV á dögunum. Kristín hefur verið áberandi undanfarin misseri en það sem færri vita er að hún lenti á vegg og varð fyrir alvarlegri örmögnun.

Fjallað er um viðtalið við Kristínu á vef RÚV en þar lýsir hún því hvernig álag og streita hafa fylgt henni um langa hríð. Hún æfði handbolta á sínum yngri árum, var virk í leikfélaginu í menntaskóla og hafði alltaf nóg fyrir stafni. Henni gekk enda vel í leikhúsinu, fékk viðurkenningar og fullt af verkefnum.

Hún gekk í gegnum skilnað og í kjölfarið fóru ýmis atriði að safnast upp sem juku á streituna. Hún varð langþreytt og jafnvel neikvæð gagnvart starfinu sem hún elskaði. Hún fór svo að gleyma hlutum; til dæmis línum í leikhúsinu og það var eitthvað sem hafði ekki gerst áður.

Í heimsfaraldrinum þurftu leikhúsin að loka og í viðtalinu sagðist Kristín hafa verið ánægð með það. Hún vildi nýta tímann til að hugsa um sjálfa sig og verða besta útgáfan af sér. Hún vandaði sig við jólagjafainnkaupin en þegar kom að sjálfum aðfangadegi áttaði hún sig á því að hún mundi ekkert hvað var í pökkunum undir trénu. „Ég hef oft verið utan við mig og oft verið í streitu en þetta var dýpra. Þetta var ekki eins og allir lenda í.“

Ekki löngu síðar kom annað áfall en þá var hún að keyra, við gatnamót Grensásvegar og Ármúla, þegar hún skyndilega mundi ekki hvert hún var að fara. Þá var hún skyndilega óviss um muninn á græna ljósinu og því rauða; hvort hún þyrfti mögulega að stoppa á grænu ljósi.

„Þetta var djúp gleymska og ég varð mjög, mjög hrædd. Þetta var ótrúlega óþægileg tilfinning. Þá vissi ég að það væri eitthvað að, að þetta væri ekki í lagi.“

Kristín fór til læknis í kjölfarið sem sagði henni að ástandið væri alvarlegt og hún þyrfti á hvíld að halda. Það reyndist henni þó erfitt, enda Kristín ekki vön því að sitja auðum höndum. Hún lýsir því þó sjálf að ástandið hafi verið alvarlegt.

„Ég braut saman tvær peysur og þurfti þá að sofa í tvo tíma. Þetta var alveg svona, ekki alla daga endalaust en þetta var örmögnun.“

Í viðtalinu kom fram að Kristín hefði náð góðum bata og orkan hafi komið aftur eftir nokkurn tíma.

„Auðvitað koma dagar þar sem ég fatta að kjálkinn á mér sé spenntur og ég er kannski að elda með sperrtar rasskinnar,“ segir hún meðal annars og er staðráðin í að fara aldrei aftur á þennan stað. „Ég hugsa að ég muni aldrei hlaðast svona, ekki svona djúpt,“ segir hún meðal annars.