Kristín alda: „Ræstingar eru stórmerkilegt starf – hér er gamalt fólk sem þarf að líða vel“

12. febrúar 2020
19:54
Fréttir & pistlar

„Ræstingar eru stórmerkilegt starf. Fyrst skildi ég ekki af hverju það væri alltaf verið að þrífa sömu staðina aftur og aftur.“

Þetta segir Kristín Alda Jörgensdóttir sem starfaði sem sumarkona í ræstingum. Hún segir starfið mikilvægt og skipta miklu máli fyrir heldra fólk á hjúkrunarheimilum. Þá kveðst hún hafa lært mikið af starfinu. Kristín sagði sögu sína á Facebook-síðunni Fólkið í Eflingu.

Við gefum Kristínu orðið:

„Ég var komin í frí og hékk bara heima. En fólkið mitt var ekki ánægt með ástandið, sérstaklega amma, hún þoldi illa að sjá mig svona aðgerðarlausa. Hún tók mig með sér næst þegar hún fór að heimsækja Sigga bróður sinn á elliheimilið, og sendi mig niður á skrifstofuna í starfsviðtal. Á skrifstofunni voru þær hræddar um að ég kæmist ekki að, ég væri tæplega sautján ára og eldra fólk væri í forgang. En viku síðar fékk ég ræstingastarfið.“

Ræstingar eru stórmerkilegt starf. Fyrst skildi ég ekki afhverju það væri alltaf verið að þrífa sömu staðina aftur og aftur. Ég þurfti að sjá að ef það er ekki þrifið þá fyllist allt af ryki og skít á augabragði. Það gerist svo fljótt og hérna er gamalt fólk sem þarf að líða vel. Þetta fyrirtæki hérna gæti ekki virkað ef hér væru ekki skipulagðar hreingerningar alla daga.

Fyrir utan það eru allir svo ánægðir heima hjá mér. Herbergið mitt sem leit alltaf út einsog sprengju hafi verið varpað þar inn er svo reglulega huggulegt núna. Mamma hefur kvartað mikið í gegnum tíðina yfir herberginu mínu en eftir að ég byrjaði hérna er það alltaf tandurhreint.

Starfsfólkið hérna hefur spurt mig afhverju ég sé ekki í umönnun þar sem ég sé íslensk, afhverju ég sé í ræstingunum. Svarið er að átján ára og eldri hafa forgang í umönnun og svo eru ræstingar mjög mikilvægar.“