Krafta­verk á Land­spítalanum – Árni Þórður út­skrifaður eftir að hafa barist fyrir lífi sínu í tíu mánuði

Krafta­verk á Land­spítalanum – Árni Þórður út­skrifaður eftir að hafa barist fyrir lífi sínu í 11 mánuði

Árni Þórður, sonur Sigga Storms, er út­skrifaður eftir tíu mánaða dvöl á Land­spítalanum. Hann barðist fyrir lífi sínu eftir al­var­lega líf­færa­bilun. Þeir feðgar gengu út af spítalanum í gær glaðir í bragði og þakk­látir fyrir góðar kveðjur. Þetta kemur fram í Frétta­blaðinu í dag.

„Nú er drengurinn að út­skrifast eftir tæp­lega tíu mánaða dvöl á Land­spítalanum, sem eru vissu­lega stór­kost­leg kafla­skil og er dá­sam­legt,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son, betur þekktur sem Siggi Stormur, en sonur hans, Árni Þórður, fékk lækna­bréf á fimmtu­dag þar sem hann var út­skrifaður.

Nú tekur við eftir­fylgni og eftir­lit hjá Árna sem varð þrí­tugur á meðan hann barðist fyrir lífi sínu. Árni varð fyrir al­var­legri líf­færa­bilun 19. desember síðast­liðinn og var vart hugað líf á tíma­bili. Þjóðin hefur fylgst vel með bar­áttu fjöl­skyldunnar en Sigurður hefur leyft þjóðinni að fylgjast með á Face­book-síðu sinni.

Árni mun þurfa á næstunni að hitta meltingar­sér­fræðinga, fara í blóð­prufur, í sneið­mynda­tökur og vera í ströngu eftir­liti. „Fyrir okkur for­eldrana og fjöl­skylduna er þetta hálf­gert krafta­verk. Það er eigin­lega ekkert hægt að lýsa því öðru­vísi.

Hann var svo svaka­lega veikur og það leist ekki öllum á blikuna á tíma­bili,“ segir Sigurður og tekur sér smá hlé.

„Ég á­kvað að tjá mig á Face­book. Það var mín að­ferð til að komast í gegnum þetta. Sumir gagn­rýna það ef­laust að opna sig svona, en ég bara trúi á gott fólk og það stóðst. Það var dá­sam­leg og ó­lýsan­leg til­finning hvað svona góðar kveðjur geta stutt mann þegar öll sund virðast lokuð. Ég get aldrei þakkað þeim sem með einum eða öðrum hætti sýndu styrk og góðan hug. Þegar svona kemur upp þá er maður svo al­einn í eyði­mörkinni, maður er alveg hjálpar­laus því maður kann auð­vitað ekkert í læknis­fræðum. Getur ekkert gert og þarf að treysta á Guð og lukkuna, góða lækna og hjúkrunar­fólk.

En ég fann að ég var ekki einn. Það voru svo margir sem sendu hlýja strauma og ég fann það standandi einn í myrkrinu. Það voru margir sem hringdu, sendu mér skila­boð og gáfu mér góð ráð og sendu góðar hugsanir. Nokkuð sem ég varð mjög meyr yfir.“

Hann segir það hafa verið erfitt að horfa upp á son sinn berjast fyrir lífi sínu. „Þetta var hryllingur. Þetta stóð yfir svo lengi og hann varð svo veikur svo lengi.“

Árni hafði ný­verið klárað Toll­skólann og var búinn með í­þrótta­fræðina frá Laugar­vatni. Hann var því hinn hraustasti og erfitt að út­skýra hvað það var sem gerðist.

„Nú tekur við þetta eftir­lit sér­fræðinga á göngu­deild meltingar­sjúk­dóma. Svo verður endur­hæfing, en hann kann ýmis­legt fyrir sér í að styrkja og efla. Þannig vill hann byrja, en endur­hæfing þarf að ná yfir huga og hönd. Hann spyr sig eðli­lega af hverju ég?“

Siggi getur vart lýst því hvað hann er glaður að ganga út í lífið á ný með Árna sér við hlið. „Ég verð að koma ítrustu þökkum til þeirra sem hjálpuðu okkur í gegnum þetta. Við stöndum í mikilli og ævarandi þakkar­skuld, hvort sem það eru heil­brigðis­starfs­menn eða fólkið í landinu. Takk.“