KR-ingar syrgja einn sinn besta mann: Sagði Gylfa að hann væri ekki nógu snyrtilegur til fara

13. janúar 2021
10:14
Fréttir & pistlar

Sigur­geir Bjarni Guð­manns­son, fram­kvæmda­stjóri Í­þrótta­banda­lags Reykja­víkur til rúm­lega 40 ára og einn dyggasti KR-ingur landsins, lést á Vífils­stöðum þann 30. desember síðast­liðinn. Sigur­geir fæddist í Reykja­vík árið 1927 og var því 93 ára þegar hann lést.

Fjöl­margir minnast Sigur­geirs í Morgun­blaðinu í dag, en eins og að framan greinir var hann dyggur KR-ingur. Hann spilaði fót­bolta með yngri flokkum fé­lagsins og sneri sér svo að þjálfun árið 1951 og var þjálfari yngri flokka fé­lagsins í ára­tugi. Þá þjálfaði hann meistara­flokk fé­lagsins, sem vann til allra þeirra verð­launa í boði voru. Undir hans stjórn urðu KR-ingar til dæmis Ís­lands- og bikar­meistarar árið 1963 og þá var hann í teymi KR-inga sem mættu Liver­pool á Anfi­eld í Evrópu­keppninni árið 1964.

Sigur­geir var for­maður knatt­spyrnu­deildar KR og einnig hand­knatt­leiks­deildarinnar. Hann var gerður að heiðurs­fé­laga KR og ÍSÍ, fékk gull­s­tjörnu ÍBR, gull­merki KSÍ og Knatt­spyrnu­þjálfara­fé­lags Ís­lands. Þá var hann sæmdur riddara­krossi hinnar ís­lensku fálka­orðu fyrir störf á vett­vangi ís­lenskrar í­þrótta­hreyfingar.

Gylfi Dal­mann Aðal­steins­son, for­maður KR, segir að Sigur­geir hafi haft mikil á­hrif á starf og upp­byggingu KR upp úr miðri síðustu öld. Hann rifjar svo upp skemmti­lega sögu af sam­skiptum hans við Sigur­geir.

„Þegar ég var ný­tekinn við sem for­maður KR hitti ég Sigur­geir í KR-heimilinu, hann spurði mig hvort ég væri ekki orðinn for­maður KR? Jú sagði ég, þá svaraði hann: „Þú ert ekki nægi­lega snyrti­legur til fara.“ Það var ekki nægi­legt í hans huga að for­maður KR væri í galla­buxum og skyrtu, hann ætti að vera í jakka­fötum með bindi. Þegar hann var inntur eftir því hvort það væri ekki mikill heiður að vera gerður að heiðurs­fé­laga KR sagði hann: „Jú vissu­lega, en fyrir hvað?“ Við KR-ingar þökkum Sigur­geiri fyrir allt sem hann gerði fyrir gamla góða KR og minnumst hans með hlý­hug og af virðingu og þökkum honum sam­fylgdina í gegnum tíðina og vottum að­stand­endum inni­lega sam­úð.“

Ellert B. Schram, KR-ingur, fyrr­verandi þing­maður og fyrr­verandi for­maður KSÍ, minnist Sigur­geirs einnig með hlý­hug í grein sinni. Hann segir að Sigur­geir sé ein helsta kempan sem gerðu KR að því stór­veldi sem fé­lagið er.

„Hann hafði ó­venju­næman skilning á góðri knatt­spyrnu og vissi upp á hár hvernig ætti að gera KR-liðin miklu betri og þar með á endanum ís­lenska knatt­spyrnu í heild – ekki með eins­pili heldur sam­spili, ekki með glóru­lausu puði heldur með því að lesa leikinn, ekki með fauta­skap heldur létt­leika. Í þessum efnum var Sigur­geir langt á undan sinni sam­tíð,“ segir Ellert en Sigur­geir þjálfaði hann á sínum tíma

„Sigur­geir var bráð­skarpur, marg­fróður, minnugur og skemmti­legur. Hann var heiðar­legur, hrein­skiptinn, hrað­mæltur, hugsaði í lausnum og kom sér beint að efninu. En hann bjó einnig yfir mikilli hlýju í mann­legum sam­skiptum, ó­metan­legri kímni og breiðu brosi sem lýsti upp menn og mál­efni. Ég þakka mínum kæra vini fyrir alla hans þjálfun, farar­stjórn og leið­sögn í næstum sjö ára­tugi. Vin­átta hans hefur verið mér mikil gæfa á lífs­leiðinni.“