Hringbraut skrifar

Kostnaðurinn við krónuna – samanburður

19. janúar 2018
08:27
Fréttir & pistlar

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að kostnaður Seðlabankans við að halda úti gjaldeyrisforða sínum væri um 17 milljarðar á ári.

Þetta eru fjárútlát Seðlabankans við að byggja upp varnir til að verja gengi lítillar myntar.

17 milljarðar eru álíka fjárhæð og áfengisgjald skilar í ríkissjóð.

Kostnaður við íslensku krónuna birtist þó víðar og sérstaklega í skuldum einstaklinga og heimila, þar sem krónan hefur lengi verið hávaxtamynt.

Í nágrannalöndunum eru vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum algengir 1-3 prósent, en 6-8 prósent hér að lágmarki. Vextir á öðrum lánum, svo sem yfirdráttarlánum og greiðslukortadreifingu, eru mun hærri.

Í árslok 2106 skulduðu einstaklingar á Íslandi tæplega 1.900 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.

Hvert prósentustig í vöxtum kostaði því 19 milljarða árlega. Ef reiknað er með því að vextir séu að jafnaði fimm prósentustigum hærri hér en í nágrannalöndinum er kostnaður einstaklinga á Íslandi vegna vaxtastigsins 95 milljarðar á ári. Hér er miðað við húsnæðislán, ekki mun dýrari neyslulán.

Kostnaður samfélagsins vegna krónunnar er þess vegna að lágmarki 112 milljarðar króna á ári og er þá varlega reiknað og alls ekki allt talið.

Það jafngildir um hálfri milljón á mann á aldrinum 18-80 ára.

Það er minna en það sem fyrirtæki í landinu greiða í tekjuskatt (73 milljarðar).

Framlag ríkisins til framhaldsskóla er um 30 milljarðar. Öll útgjöld til háskólastigsins eru um 45 milljarðar.

Öll þjónusta sjúkrahúsa í landinu kostaði ríkið um 70 milljarða árið 2016.